Tveir skólar á Akureyri verða Réttindaskólar

Giljaskóli.
Giljaskóli.

Nú á vordögum hófst undirbúningur vegna innleiðingar Réttindaskóla UNICEF á Akureyri og fyrstu skólarnir sem taka þátt eru Giljaskóli og Naustaskóli og hefst sú vinna strax haustið 2019. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar. Verkefnið felur í sér áherslu á að skapa jákvæðan skólabrag sem byggir á þátttöku, jafnrétti og virðingu.

Markmið Réttindaskóla og Réttindafrístundar er að byggja upp lýðræðislegt náms- og frístundaumhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkja getu barna til að temja sér gagnrýna hugsun og verða virkari og hæfari þátttakendur í nútímasamfélagi. Með það að markmiði eru grundvallarforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir innan skólans auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, kennara, frístundaleiðbeinanda og annarra starfsmanna skóla- og frístundar.

„Í ljósi þess að Akureyrarbær er á góðri leið með að verða fyrsta barnvæna sveitarfélag landsins er virkilega jákvætt skref að innleiða einnig Réttindaskóla og Réttindafrístund,“ segir á vef bæjarins. Flataskóli, ásamt frístundaheimilinu Krakkakoti, og Laugarnesskóli, ásamt frístundaheimilinu Laugarseli, fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar og Réttindafrístund UNICEF á Íslandi 20. nóvember 2017 fyrstir allra hér á landi en Akureyrarbær er fyrsta sveitarfélagið til að innleiða verkefnið utan höfuðborgarsvæðisins.

 

Nýjast