Tveggja metra reglan ekki virt í Sundlaug Akureyrar

Síðdegis á laugardaginn fékk lögreglan á Akureyri tilkynningu um að mikill mannfjöldi væri í Sundlaug Akureyrar og þá sérstaklega í heitu pottunum. Lögreglumenn fóru á vettvang og í ljós kom að heildarfjöldi gesta var vel innan leyfilegra marka en í pottunum var þétt setið.

Var aðgengi að sundlauginni lokað að kröfu lögreglu það sem eftir var dags og starfsfólki gert að koma betra skipulagi á hlutina sem og að bæta úr merkingum við heitu pottana áður en að starfsemin yrði opnuð aftur daginn eftir. Greint er frá þessu á Facebooksíðu lögreglunnar.

Nú um helgina var lögreglan með sérstakt eftirlit með veitingastöðum og hótelum og voru áhersluatriðin hólfaskipting, opnunartími og önnur atriði því tengdu.

Svigrúm fyrir bætingar

„Hægt er að segja að ástandið hafi verið gott en talsvert svigrúm er til bætingar, jafnt fyrir rekstraraðila og þá ekki síður viðskiptavini. Rekstraraðilar þurfa flestir að gefa viðskiptavinum sínum skýrari upplýsingar um hólfaskiptinu og lokunartíma en veitingastöðum er einungis heimilt að hafa opið til kl. 22:00 og á það einnig við um veitingasölu á hótelum. Heimilt er þó að selja veitingar út úr húsi til kl. 23:00. Hvað viðskiptavini varðar þá hafa þeir öll ráð til að kynna sér allar þessar leikreglur og hvetjum við þá til til að fara að þeim fyrirmælum sem þeim eru gefin þegar þeir heimsækja staði sem þessa og eiga kurteis samskipti við starfsfólk sem og aðra,“ segir lögrlegna.

Á næstu dögum verður farið yfir þessi mál hjá lögreglunni og metið hvort að einhverjir eftirmálar verða hvað þessar heimsóknir varðar. Lögreglan mun halda áfram með samskonar eftirlit um næstu helgi.

Nýjast