20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Tvær nýjar leikskóladeildir til að mæta aukinni þörf
Talsverð fjölgun hefur orðið á umsóknum um leikskólapláss á Akureyri undanfarin misseri og stór árgangur barna er að komast á leikskólaaldur haustið 2023. Þar af leiðandi stóð sveitarfélagið frammi fyrir því verkefni að fjölga leikskólarýmum í bænum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
Þar segir að undirbúningur sé hafinn að nýjum leikskóla í Hagahverfi og vonast sé til að fyrsti áfangi þess leikskóla verði tilbúinn haustið 2025. Því sé sú fjölgun rýma sem nú stendur fyrir dyrum tímabundið úrræði og kappkostað hafi verið að leita að húsnæði í eigu Akureyrarbæjar svo fjármagn bæjarins nýttist sem best. Eftir skoðun var valin sú leið að nýta rými í Oddeyrarskóla og Síðuskóla og verða útbúnar leikskóladeildir þar fyrir næsta haust.
Í Oddeyrarskóla verður útbúin deild fyrir yngsta hóp leikskólabarna sem verður hluti af leikskólanum Iðavelli. Rýmið og hluti af útisvæði verða hönnuð til að mæta þörfum þess aldurshóps.
Í Síðuskóla verður til deild fyrir elsta árgang leikskólabarna sem verður hluti af leikskólanum Krógabóli sem er í Glerárkirkju gegnt skólanum.
Bæði rýmin verða gerð upp í góðu samstarfi umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar og stjórnenda viðkomandi skóla. Við Síðuskóla stendur til að fara í umfangsmiklar endurbætur á skólalóð en sér afgirt svæði verður fyrir leikskólabörnin auk þess sem leikskólinn getur nýtt stóra svæðið með börnunum eftir hentugleikum.
„Að baki ákvörðun um aldur barnanna sem fara í hinar nýju leikskóladeildir lágu ýmsar ástæður, m.a. hvernig rýmið hentar ólíkum aldurshópum, aldursdreifing og fjöldi umsókna. Skólahúsnæði Síðuskóla hentar vel þeim fjölda barna sem eru að fara á elstu deild Krógabóls og þar verða góð tækifæri til mikils samstarfs við grunnskólann, en Krógaból og Síðuskóli hafa átt farsælt samstarf. Gera má ráð fyrir að yngstu börnin sem boðið verður rými í deildinni í Oddeyrarskóla séu að miklu leyti búsett utan skólahverfis Oddeyrarskóla og fari því flest í leikskóla nær heimili sínu eftir fyrsta árið," segir Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar.