Tónlistarhátíðin „Ómar“ í Verksmiðjunni á Hjalteyri
Tónlistarhátíðin ÓMAR verður haldin í fyrsta sinn næstkomandi laugardag í Verksmiðjunni, Hjalteyri. Milli klukkan 13 og 17 verður opin vinnustofa þar sem gestir geta tekið þátt og prófað nýsmíðuð hljóðfæri. Um kvöldið, kl. 20, verða tónleikar þar sem má m.a. heyra í dórófón, raflangspilum og gervigreindum hljóðforritum.
Ýmis nýsmíðuð hljóðfæri verða kynnt á opinni vinnustofunni milli, þ.á.m. dórófónn Halldórs Úlfarsonar sem lék stórt hlutverk í óskarsverðlaunatónlist Hildar Guðnadóttur. Rafræn langspil og tölvuhljóðfæri verða kynnt og gestir eru hvattir til að taka þátt, prófa og jafnvel koma með eigin hljóðgjafa, nýsmíðuð hljóðfæri eða hljóðtilraunir. Tónleikar verða klukkan 20:00 þar sem flutt verður tónlist þátttakenda og afrakstur vinnustofunnar. Tónleikar verða klukkan 20:00 þar sem flutt verður tónlist þátttakenda og afrakstur vinnustofunnar.
Verksmiðjan á Hjalteyri er sýningar- og verkefnarými stofnað 2008 í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri. Aðaláhersla er lögð á alþjóðlega samtímalist, kvikmyndir, vídeólist, tónlist en einnig námskeið listaskóla. Verksmiðjan á Hjalteyri var handhafi Eyrarrósarinnar 2016 en hún er árlega veitt fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Verksmiðjan hlaut einnig nýlega sérstaka viðurkenningu Myndlistarráðs fyrir áhugaverðustu samsýninguna 2021.