Tónlistarbandalag Akureyrar stofnað að nýju

TBA kom að stofnun Tónlistarskóla Akureyrar en hann er nú til húsa í Hofi. Mynd/Auðunn Níelsson
TBA kom að stofnun Tónlistarskóla Akureyrar en hann er nú til húsa í Hofi. Mynd/Auðunn Níelsson

Tónlistarbandalag Akureyrar/TBA hefur verið endurstofnað til að vinna að bættri aðstöðu fyrir frjálsa tónlistarhópa - til fastra æfinga og til að koma upp hagkvæmu húsnæði til viðburðahalds og tónleika sem veita áhugamannafélögum verðskulduð tækifæri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu

Tónlistarbandalag Akureyrar varð fyrst til á árunum 1945-1946 þegar Karlakórinn Geysir og Karlakór Akureyrar og Tónlistarfélag Akureyrar, Lúðrasveit Akureyrar og Kantötukór Akureyrar stofnuðu til samvinnu. Afrakstur þeirrar samvinnu varð stofnun Tónlistarskólans á Akureyri og bar Tónlistarbandalag Akureyrar ábyrgð á rekstri Tónlistaraskólans sem eigandi og bakhjarl allt til þess að Akureyrarbær tók skólann að fullu yfir árið 1990.

Upphafleg hugmynd um samstarfið 1945 snerist um að koma upp tónlistarhúsi - fyrir æfingar og viðburði frjálsra tónlistarhópa í bænum.

Í tilkynningunni kemur fram að ekki hafi væntingar forystufólks tónlistarhópa eða tónlistartengdra hópa á Akureyri farið eftir að því er varðar hagstætt æfingahúsnæði fyrir fjölbreytta hópa né heldur að til boða standi hagkvæmt og viðeigandi hús eða salir til viðburðarhalds með þeim kjörum sem auðvelda eða efla slíkt starf.

Tónlistarbandalag Akureyrar/TBA hefur nú verið stofnað að nýju – með það fyrir augum að leita samstarfs við bæjaryfirvöld á Akureyri um vandaða greiningu á þörfum og óskum tónlistarhópa áhugafólks - sem unnt væri að nota í samtali við ríkisvaldið um menningarsamninga og leggja til grundvallar þróun og uppbyggingu á metnaðarfullri og hagkvæmri aðstöðu fyrir æfingar og viðburðahald.

„Erindi þar að lútandi hefur verið komið á framfæri við Bæjarráð Akureyrar - með ósk um að fá að kynna málefni og aðstöðu þeirra hópa sem starfa á vettvangi frjálsrar þáttöku sjálfboðaliða í tónlist eða á tónlistartengdum vettvangi - oftast án allra launa – þannig að kraftar aðila megi nýtast sem best til menningarsköpunar og aukinna lífsgæða í Höfuðstað Norðurlands,“ segir í tilkynningunni.

Nýjast