Dagskráin 5. mars - 12. mars - Tbl 9
Tillaga um að koma heilsugæslu fyrir við Kjarnagötu - Spennandi staðsetning sem hentar vel -segir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN

„Fljótt á litið er þetta spennandi staðsetning og gæti hentað okkur vel,“ segir Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
Á fundi skipulagsráðs Akureyrar var á dögunum kynnt tillaga að lóð við Kjarnagötu 2, skemmt frá Bónus versluninni en þessi tillaga var sett fram sem möguleiki á staðsetningu heilsugæslustöðvar ef þær tillögur að staðsetningu sem hafa verið í undirbúningi ganga ekki upp.
Skipulagsráð tók jákvætt í þessa hugmynd og fól skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við gerð breytinga á deiliskipulagi svæðisins til samræmis við hana þar sem sérstök áhersla verður lögð á umferðarflæði.
Í vinnslu um nokkurn tíma án þess að neitt gerist
Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar segir mikinn vilja hjá Akureyrarbæ að koma verkefni við suðurstöð HSN áleiðis og því hafi möguleg svæði undir hana verið til skoðunar og væri svæðið við Kjarnagötu hluti af þeirri vinnu.
Málefni suðurstöðvar heilsugæslunnar hafa verið í vinnslu í nokkurn tíma. Fyrst var gert ráð fyrir að hún yrði á lóð við Þingvallastræti, vestan hótelsins, á svonefndum tjaldsvæðareit. Eftir tvær tilraunir til útboðs var hætt við þann stað. Pétur Ingi nefnir að eftir þær tilraunir hafi verið kannað hvort koma mætti heilsugæslustöð fyrir við Þingvallastræti í námunda við Sjúkrahúsið á Akureyri.
Framkvæmdasýsla ríkisins gerði í haust markaðskönnun til að athuga hvort til væri húsnæði sem gæti hentað undir heilsugæslustöð.
Þurfa næg bílastæði
Jón Helgi segir að þeirri könnun sé nýlokið, eitthvað hafi boðist af húsnæði en það ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett voru í útboði. „Næsta verk er því að skoða þær lóðir sem bjóðast, meta þær og koma verkefninu í gang. Það er það sem liggur fyrir núna,“ segir hann.
Á nýrri suðurstöð er ætlunin að koma fyrir miðstöð heimahjúkrunar og heimaþjónustu á vegum Akureyrarbæjar sem nú eru í leiguhúsnæði við Skarðshlíð. Jón Helgi segir að talsverður bílafloti fylgi þeirri starfsemi og því ljóst að næg bílastæði þurfi að vera fyrir hendi. „Við sjáum að þau skilyrði verða uppfyllt við Kjarnagötu,“ segir hann.
Ekki sé þó búið að blása staðsetningu við Sjúkrahúsið á Akureyri alveg út af borðinu, en þar sé við flóknari hluti að eiga eins og uppbygginu SAk til framtíðar og að þar þurfi að vera pláss fyrir þyrlulendingar.
„Við leggjum mikla áherslu á að ný stöð í suðurhluta Akureyrar verði af sömu gæðum og sú sem fyrir hendi er í norðurhluta bæjarins. Það er lykilatriði til að geta mannað heilsugæslustöðvar að bjóða upp á góða aðstöðu,“ segir Jón Helgi.