KA og Þór framlengja samstarfssamning um Þór/KA til loka ársins 2026

Þór og KA hafa  framlengt samstarfssamning um Þór/KA til loka ársins 2026
Þór og KA hafa framlengt samstarfssamning um Þór/KA til loka ársins 2026

Aðalstjórnir og stjórnir knattspyrnudeilda KA og Þór hafa komist að samkomulagi um framlengingu á samstarfssamningi sínum um sameiginlegt meistaraflokkslið kvenna í knattspyrnu, Þór/KA, til loka tímabilsins 2026. Samhliða þeim samningi er gerður samningur um samstarf félaganna um rekstur 2. og 3. flokks kvenna sem gildir í sama tíma.

Félögin hófu samstarf sitt árið 2001 en síðan þá hefur Þór/KA hefur verið eitt af fremstu liðum landsins í kvennaknattspyrnu. Framlenging samstarfsins tryggir áframhaldandi öflugt starf félaganna beggja um eflingu kvennaknattspyrnu á Akureyri og stöðugleika í starfsemi liðsins næstu tvö ár að minnsta kosti.

Samhliða undirritun samningsins vilja stjórnendur beggja félaga lýsa yfir ánægju með áframhaldandi samstarf og telja það mikilvægt skref í að efla kvennaknattspyrnu á Norðurlandi. Mikil fjölgun iðkenda í kvennaknattspyrnu hefur átt sér stað hjá báðum félögunum og því veitir þetta samstarf stúlkum aukin vettvang til að iðka knattspyrnu á hæsta afreksstigi sem og þeim sem vilja iðka knattspyrnu sér til heilsubótar og almennrar ánægju. Öll liðin munu geta iðkað æfingar og keppni á báðum félagssvæðum KA og Þórs.

„Við erum afar ánægð með að hafa tryggt áframhaldandi samstarf um Þór/KA. Við sjáum fram á spennandi tíma og trúum því að þetta sé rétta skrefið fyrir áframhaldandi þróun liðsins,“ segja formenn knattspyrnudeilda félaganna, Sveinn Elías Jónsson frá Þór og Hjörvar Maronsson frá KA.
„Lykilatriði í þessu samstarfi er að aðilar standi saman að þessu með jákvæðnina að leiðarljósi“ segja þeir báðir.

Þór/KA mun halda áfram að þróa unga leikmenn, styðja við afreksmenn og tryggja framgang kvennaknattspyrnu á Akureyri. 

Nýjast