VMA og MA falið að kanna möguleika á samvinnu eða sameiningu
Mennta- og barnamálaráðherra skipaði í síðustu viku stýrihóp um eflingu framhaldsskóla. Hópnum var falið að leggja fram tillögur að framtíðarskipulagi til að auka gæði náms og bregðast við breytingum í umhverfi skólanna.
Að frumkvæði stýrihópsins og mennta- og barnamálaráðuneytisins hafa skólameistarar eftirfarandi skóla hafið viðræður um aukið samstarf skólanna um fagleg og rekstrarleg málefni eða sameiningu skólanna í nýjar og öflugri einingar:
- Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri
- Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn við Sund
- Flensborgarskólinn í Hafnarfirði og Tækniskólinn
- Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs
Skólastjórnendur munu vinna með stýrihópnum að gerð skýrslu um kosti og galla þessara sviðsmynda og leggja fyrir mennta- og barnamálaráðherra fyrir lok maí. Í störfum hópsins verður haft samráð við fulltrúa nemenda, kennara og starfsfólk skólanna og aðra hagaðila. Niðurstaða viðræðna mun ekki hafa áhrif á skipulag eða innihald náms á komandi skólaári hjá nemendum og starfsfólki skólanna og heldur ekki hjá þeim nýnemum sem innritast í skólana í vor.
Skólameistarar VMA og MA voru boðaðir á fund stýrhópsins fyrr í vikunni og hafin er vinna við að taka saman gögn og meta kosti og galla þess að auka samstarf eða sameina skólana. Hvert sem framtíðin leiðir okkur þá eru hagsmunir nemenda okkar leiðarljós og að hér á svæðinu verði áfram öflugt námsframboð með gæðanámi hvort sem það er til að undirbúa nemendur okkar undir störf eða háskólanám.
Á heimasíðu Mennta- og barnamálaráðuneytis má nálgast fréttatilkynninguna frá ráðuneytinu.
Sigríður Huld, skólameistari VMA
Frá þessu er sagt á heimasíðu VMA einnig er heimasíða MA hliðstæða frétt.