Þurfa að gera betur í vetur

Akureyringar fögnuðu þegar easyJet tilkynnti fyrir skemmstu að félagið muni fljúga beint frá Gatwick í London til Akureyrar næsta vetur í áætlunarflugi. Flugfélagið hefur nú þegar opnað fyrir bókanir, en fyrsta flugferðin verður 31. október. Flogið verður tvisvar í viku, á þriðjudögum og laugardögum, út mars 2024. Nú hyggjast Húsvíkingar stökkva á vagninn og auka ferðaþjónustu yfir veturinn.


 

Flugfélagið er jafnframt í  samstarfi við ferðaskrifstofuna easyjet Holidays og því verður einnig boðið upp á pakkaferðir til Norðurlands í tengslum við áætlunarflugið.

Húsavíkingar sjá tækifæri

Það er víðar á Norðurlandi sem þessum fyrirætlunum er fagnað ákaft. Örlygur Hnefill Örlygsson, verkefnastjóri Húsavíkurstofu segir áætlunarflugið vera himnasendingu fyrir vetrarferðaþjónustu á öllu Norðurlandi.

Hann er þegar farinn vinna að áætlun um hvernig nýta megi flugið, ferðaþjónustunni til heilla. „Ég er að vinna í því að við stimplum okkur inn hér á svæðinu gagnvart þessu flugi. Ég er kominn með tengilið hjá easyJet og er að undirbúa kynningu á því hvað Húsavík og Þingeyjarsýslur hafa upp á að bjóða og mun þegar hún er klár kynna hana fyrir bæði easyJet og Markaðsstofu Norðurlands,“ segir Örlygur í samtali við Vikublaðið.

Algjör himnasending

Örlygur segir jafnframt að ferðaþjónustan þurfi að gera mun betur en undanfarna vetur. „Þetta er eftir allt sem á undan er gengið algjör himnasending að þetta flug sé að fara í gang. Þau eru að leggja áherslu á veturinn og það er þar sem við þurfum að bæta okkur. Við ætlum að gera okkur gildandi þar líka. Vilji minn er að við vinnum þetta sem mest með Markaðsstofunni í að kynna Þingeyjarsýslur og komum af krafti inn í það.

Voru til skammar

Hann segist vera kortleggja þessa dagana hvaða þjónusta verður í boði næsta vetur. „Við vorum til skammar síðasta vetur, það var bara algjör uppgjöf ekkert annað hægt að segja um það. Þetta má ekkert vera svona áfram. Hér er komið tækifæri og við verðum að stökkva á það,“ segir Örlygur og dregur ekkert úr því að gera þurfi mun betur.

„Það er fáránlegt að eyða peningum í að byggja upp ferðaþjónustu og láta hana svo standa tóma fimm mánuði á ári. Það er bara rosalega vond nýting. Það á að vera kappsmál hjá öllum sem eru búnir að setja peninga í byggingar, húsnæði og innviði til að taka á  móti fólki að lengja þetta tímabil. Það þarf að horfa á þessa uppbyggingu og hugsa hversu mikið hægt er að auka viðskiptin ef veturinn er tekinn alvarlega. Hvað þarf að setja mikinn pening í þetta og hvar. Þetta er fjárfesting,- það kostar alveg að láta veturinn virka. Ég þekki það sjálfur úr gistiþjónustunni, enda búinn að vera berjast í því í mörg ár með rekstur okkar fjölskyldunnar. Þetta er náttúrlega basl en það verður alltaf skárra,“ segir Örlygur.

Fleiri tækifæri í farvatninu

Ölli

Örlygur segir jafnframt að það séu að opnast enn fleiri möguleikar fyrir vetrarferðaþjónustu í sveitarfélaginu. „Núna erum við með tækifæri í sambandi við þetta flug og það sem meira er; Húsavíkurstofa og hafnaryfirvöld á Húsavík eða Norðurþingi eru í samræðum við Hurtigruten sem hafa áhuga á að koma með siglingar sínar yfir veturinn líka. Það væri alveg borðleggjandi dæmi fyrir þá sem eru hikandi við að hafa opnunartíma yfir veturinn. Þá a.m.k. vita þessir aðilar nákvæmlega þá daga þegar það eru hundrað manns í bænum,“ útskýrir Örlygur og leggur enn áherslu á að mikilvægasta verkefni Húsavíkurstofu sé að markaðssetja veturinn.

Sumarið rekur sig sjálft

„Þetta er númer 1, 2 og 3 hjá Húsavíkurstofu. Ég hef líka sagt það við stjórnina að það sé engin þörf á mínu starfi ef það snýst bara um að viðhalda sumrinu. Það sér um sig sjálft. Sumarið er leyst og það verður það næstu 10 árin ef ekkert stórkostlegt gerist,“ segir Örlygur Hnefill að lokum.

Nýjast