Þór skellti Skallagrími í mikilvægum leik
Þór hafði betur gegn Skallagrími í kvöld, 70-68, í 1. deild karla í körfuknattleik en leikið var í Höllinni á Akureyri. Sigur Þórs var afar þýðingarmikill í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og með sigrinum í kvöld fer liðið upp í fjórtán stig og er aðeins tveimur stigum frá fimmta sætinu, sem er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Þar situr Breiðablik sem á leik til góða. Stefán Karel Torfason var stigahæstur í liði Þórs í kvöld en hann skoraði 24 stig. Hörður Helgi Hreiðarsson skoraði 21 stig fyrir Skallagrím. Skallagrímur er áfram í öðru sæti deildarinnar með 22 stig og er öruggt með sæti í úrslitakeppninni.