27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Þjónusta Frú Ragnheiðar hefur vaxið og er fjölbreyttari en áður
Mun fleiri hafa sótt þjónustu til Frú Ragnheiðar á Akureyri á fyrstu átta mánuðum þessa árs en gerðu á sama tímabili í fyrra. Hópstjórar verkefnisins á Akureyri eru þær Berglind Júlíusdóttir og Edda Ásgrímsdóttir. Þær telja að helstu skýringu á um 40% aukningu vera þá að tekist hafi á þeim tíma sem liðinn er frá því verkefnið hófst, í ársbyrjun 2018 að byggja upp traust þeirra einstaklinga sem nýta þjónustuna. Þjónustan hefur einnig verið efld og aukin. Frú Ragnheiður er skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins fyrir fólk sem notar vímuefni í æð.
Alls voru heimsóknir í bíl sem Frú Ragnheiður gerir út á Akureyri, 262 nú á tímabilinu janúar til loka ágúst, en þær voru 195 yfir allt árið í fyrra. Einstaklingar að baki heimsóknunum eru 32 í ár en voru 23 allt síðastliðið ár. „Það er ekki endilega samasemmerki á milli aukinnar notkunar þjónustunnar og þess að fleiri einstaklingar á svæðinu noti vímuefni í æð. Við höfum boðið þessa þjónustu í nokkur ár og hún hefur spurst út, fleiri vita af okkur en áður og það hefur myndast ákveðið traust sem þarf að vera fyrir hendi,“ segir þær Berglind og Edda.
Báðar hafa starfað við verkefnið frá upphafi og Berglind er eini starfsmaður þess, í 20% starfi. Að öðru leyti er verkefnið mannað með sjálfboðaliðum Rauða krossins á Akureyri en þeir eru í allt um 30 talsins. Tveir eru á hverri vakt og er annar þeirra með heilbrigðismenntun. Þrjár vaktir eru í viku og hefur fólk sem ætlar sér að nýta þjónustuna beint samband með síma, eða skilaboðum. „Við erum á ferðinni og mætum fólki þar sem það kýs að hitta okkur, það fyrirkomulag hefur reynst vel hér, en t.d. í Reykjavík fer bíll um og stoppar á ákveðnum fyrirfram uppgefnum stöðum,“ segja þær.
Berglind og Edda segja að þarfagreining hafi verið gerð árið 2017 áður en verkefninu var ýtt úr vör og niðurstöður þá gefið til kynna að 20 til 30 einstaklingar á Akureyri hafi neytt vímuefna í æð. Þær segja tímabært að kanna málið á ný. Í ljósi þess að heimsóknum fjölgar þurfi nú einnig að meta upp á nýtt hvort bæta þurfi við fleiri vöktum en þeim þremur sem nú eru.
Aukum aðgengi að lágmarks heilbrigðisþjónustu
Frú Ragnheiður þjónustar einstaklinga með erfiðan fíknivanda, veitt er heilbrigðisaðstoð, sálrænn stuðningur og nálaskiptaþjónusta. „Hugmyndafræði skaðaminnkunar er okkar leiðarljós, en hún gengur út á að draga úr jaðarsetningu þeirra sem glíma við erfiðan fíknisjúkdóm og með auka með því móti aðgengi þeirra að lágmarks heilbrigðisþjónustu,“ segir þær og bæta við að hugmyndafræðin hafi sannað gildi sitt um árin. „Við leggjum áherslu á að mæta okkar skjólstæðingum með virðingu, reynum að auka við lífsgæði þeirra. Okkar þjónusta miðar að því að lágmarka skaðann sem verður við þessa ákveðnu hegðun án þess að gera kröfu um að einstaklingurinn láti af henni.“
Markmið verkefnisins er að þeirra sögn að stuðla að öruggri sprautunotkun, koma í veg fyrir blóðborna sjúkdóma hjá fólki sem sprautar vímuefnum um æð og vinna gegn því að sprautur og annar búnaður sé skilin eftir á víðavangi. „Við metum það svo að góður árangur hafi náðst og að langflestir okkar skjólstæðinga hafi sýnt ábyrga hegðun hvað förgun varðar. Við höfum úthlutað nálaboxum til að safna saman í notuðum sprautum og komum þeim til förgunar á viðeigandi stað,“ segja þær Berglind og Edda. Auk nálaskiptiþjónustu er í boði heilbrigðisþjónusta og hefur sá þáttur farið vaxandi. Sem dæmi má nefna að fylgst er með einkennum og þróun sýkinga hjá skjólstæðingum og er aðgangur að lækni á bakvakt ef þörf er á sýklalyfjum.
Næringar- og húsnæðisvandi áberandi
Nýjung í þjónustu Frú Ragnheiðar er dreifing og fræðsla um notkun nefúðans Nyxoid sem komið getur í veg fyrir ótímabær dauðsföll af völdum ópíóða. Þá nefna þær stöllur að sálrænn stuðningur sé mikilvægur í þessu verkefni, en notendur nýta sér hann vel.
Þær segja flesta skjólstæðinga glíma við næringarvanda og eins sé áberandi að flestir séu í vanda vegna húsnæðismála. Nýverið bauð veitingahús í bænum skjólstæðingum Frú Ragnheiðar upp á heitan heimilismat sem dreift er til þeirra sem vilja. „Yfirleitt er þetta eini heiti maðurinn sem fólk fær þá vikuna og það er mikil ásókn í hann, eftirspurnin er mikil, yfirleitt fá færri en vilja,“ segja þær og nefna að reynt verði að þróa verkefnið á næstu árum og bæta við þennan þátt enda mikilvægt að taka á næringarvandanum.
Flestir skjólstæðingar Frú Ragnheiðar glíma að auki við húsnæðisvanda. Þær Berglind og Edda segja að yfirleitt sé nokkur hópur fólks sem ekki hafi í nein hús að vernda, gjarnan er flakkað á milli húsa, milli ættingja og vina eða þar sem pláss finnst þá og þá nóttina. Ekkert gistiskýli er rekið fyrir heimilislausa á Akureyri en þær telja að þörf væri fyrir það, „ekki stórt en gott að hafa nokkur herbergi upp á að hlaupa fyrir þá sem hvergi komast inn,“ segja þær. Gistiskýli sér vissulega skyndilausn og stefna Akureyrarbæjar sé sú að útvega fólki varanlegt húsnæði auk þess að vinna í öðrum vandamálum. Biðlisti eftir húsnæði er langur. Þörf fyrir rekstur gistiskýlis hafi ekki verið könnuð en til bóta væri ef slíkt úrræði væri fyrir hendi.
Safna fyrir æðaskanna
Fyrirhugað er að kaupa æðaskanna sem Frú Ragnheiður hefði til umráða, en hann auðveldar einstaklingum að finna nothæfar æðar og kemur þannig í veg fyrir óþarfa stungur sem leitt geta til sýkinga og eða annarra alvarlegra heilufarsvandamála. Æðaskanninn kostar á bilinu 500 til 800 þúsund krónur. „Þetta er gagnlegt tæki fyrir okkar skjólstæðinga en því miður er ekki til peningur fyrir því núna, en við erum byrjuð að safna fyrir því og vonum það besta,“ segir þær Berglind og Edda.
Þær segja mikilvægt að ræða stöðu einstaklinga með alvarlegan fíknivanda á Eyjafjarðarsvæðinu og er undirbúningur að málþingi/ráðstefnu um málaflokkinn vorið 2023 hafinn.