11.desember - 18.desember - Tbl 50
Þjóðin tekur tillögur stjórnlagaráðs ekki alvarlega, segir Bjarni Benediktsson
Væntanlegar kosningar um ráðgefandi tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá eru ólýðræðislegar, þar sem stjórnarflokkarnir munu síðan toga og teygja niðurstöðurnar sér í hag, sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins á opnum fundi á Akureyri í dag. Hann sagði að ákveðin öfl í þjóðfélaginu komi til með að túlka niðurstöðurnar sem vilja þjóðarinnar, sama hver þátttakan í kosningunum kunni að verða.
Það furðar mig mjög hversu lítil umræða fer fram um væntanlegar kosningar, þjóðin virðist ekki taka þessu máli mjög alvarlega. Ég held að fólk trúi því ekki að til standi að fara í atkvæðagreiðslu sem muni kalla á stjórnarskrá á þeim grundvelli sem stjórnlagaráð hefur skilað af sér, sagði Bjarni og vitnaði meðal annars til spurningarinnar um að jafna vægi atkvæða.
Í hverst sinn sem þetta hefur verið til umræðu, hafa allir viljað hafa skoðun á málinu. En nú þegar stjórnlagaráðið segir að menn ætli að jafna atkvæðisréttinn, sem mun fyrir Norðausturkjördæmi væntanlega þýða helmings fækkun þingmanna, er nánast engin umræða. Við þetta er ég ósáttur. Ástæða þagnarinnar er líklega sú að fólk tekur hugmyndum stjórnlagaráðs ekki alvarlega.
Bara könnun
Kosningar á landsvísu eiga að ráða málum til lykta. Í þessari atkvæðagreiðslu er ekkert slíkt sem gerist, þetta er bara könnun. En trúið mér, könnunin verður notuð til að rökstyðja þann mástað sem stjórnarflokkarnir telja að henti best sinni stefnu. Slíkt er í mínum huga einhverjar ólýðræðislegustu kosningar sem hægt er að framkvæma. Kosningar þar sem hægt er að toga og teygja niðurstöðuna sér í hag.
karleskil@vikudagur.is