Jólin upp í kok!
Kona á rúmlega miðjum aldri heyrði um daginn lag Baggalúts um konu sem helst vill tékka sig inn á hótel á aðfangadag. Aldrei áður hafði ég lagt mig fram um að hlusta á textann sem talaði beint til mín fyrir um tuttugu árum. Ef ég hefði heyrt hann þá er ekki ólíklegt að ég hefði pantað mér hótelherbergi um jólin.
Lagið er flutt af Siggu Beinteins sem túlkar það af snilld. Konan sem sungið er um er búin að fá nóg. Hún er “búin að öllu”, þrífa, kaupa í matinn, pakka inn draslinu og leggja á borð. En hún getur ekki meir enda búin að standa 3ju vaktina og vel það. Hún er komin með upp í kok!
Jólin eru ekki æði
Því miður er svo mikill sannleikur í þessum texta sem virðist hafa verið skrifaður af miklu innsæi.
Fyrir öllum þessum árum upplifði ég nákvæmleg það sem textinn segir. Var í fullri vinnu utan heimilis, með húsið fullt af stálpuðum strákum sem ég nennti ekki að eyða orku í að biðja um að hjálpa til, enda hefði sennilega síðasti bensíndropinn farið í það.
Á þessum tíma sleppti ég því þó að þrífa húsið hátt og lágt. Lét duga að baka vel af smákökum, kaupa og pakka inn jólagjöfum og skrifa jólakort, sem mér hefur reyndar aldrei þótt gaman og fagna því að flestir séu hættir því. Svo þurfti að ákveða hvað átti að vera í matinn alla dagana og skipuleggja öll innkaup. Til viðbótar við þetta héldu tvær stórfjölskyldur í þá hefð að skiptast á að bjóða heim um jólin svo þegar röðin kom að okkur bættist við stúss í kringum það. Og varla var maður búinn að pústa og draga andann þegar gamlárskvöld nálgaðist óðum.
Ég ætla að viðurkenna það hér og nú að í mörg ár, þjáðist ég af jólakvíða á háu stigi. Jólin voru ekki æði og mig langaði eins og Siggu Beinteins mest að fá mér sérrí og tjilla yfir góðum sjónvarpsþætti upp í sófa. Og þegar ég heyrði lagið á dögunum rifjaðist upp þessi vonda tilfinning að kvíða jólunum.
Það sem kannski er alvarlegast í þessu öllu er að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að tala um þetta og kvarta við neinn nema manninn minn sem reyndi eftir mætti að aðstoða en 3ju vaktina tók ég og hef alltaf gert. Í dag er þessi tími sem betur fer liðinn og ég nýt jólanna en mér verður stundum hugsað til þeirra sem í dag eru á sama stað í lífinu og ég var þarna.
Jólahittingar taka í pyngjuna
Sem betur fer held ég að enginn þrífi lengur út í horn en núna hafa aðrir þættir bæst við sem einhverjum þættu ekki íþyngjandi en það eru allir “jólahittingarnir” með vinkonum og vinum. Þeir taka ekki bara tíma heldur taka þeir líka í pyngjuna. Þessi hópur mætir auðvitað líka í cross-fit hálf sex á morgnana svo það náist að koma heim til að koma krökkunum í skólann.
Með þessum skrifum er ég ekki að kalla eftir samúð heldur vil ég vekja athygli á hversu erfiður þessi tími getur verið fyrir marga. Auðvitað væri óskandi að það hafi bara verið ég en því miður held ég að svo sé ekki.
Í ár verða jólin „löng“ vegna legu sinna í dagatalinu. Þreyttir foreldrar ná þá vonandi að hlaða batteríin en ég óska öllum gleðilegra og góðra jóla.