„Þetta er mikilvægasti leikurinn í sumar til þessa“
KA mætir Fjölni í Grafarvoginum í dag klukkan 18:00 í 14. umferð Pepsideildar karla í fótbolta. Aðeins einu stigi munar á liðunum, KA er í 8. sæti með 16 stig á meðan Fjölnir er í 9. sætinu með 15 stig. Leikurinn ræður því miklu um framhaldið, með sigri gæti KA færst nær toppbaráttunni og keppt um Evrópusæti en með tapi er stutt í fallbaráttu.
Þegar liðin mættust fyrr í sumar á Akureyrarvelli fór KA með góðan 2-0 sigur af hólmi þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson og Emil Lyng skoruðu mörkin.
„Við hvetjum alla sem geta til að mæta á leikinn og styðja strákana, þetta er mikilvægasti leikurinn í sumar til þessa og ljóst að hann mun segja þó nokkuð um framhaldið, áfram KA!“ segir á heimasíðu KA.