TF- LÍF komin á Flugsafnið.
Það mátti sjá mikla eftirvæntingu í andlitum hollvina Flugsafnsins þegar nýjasti sýningargripur safnsins, björgunarþyrlan TF-LÍF, renndi i flughlaðið fyrir fram safnið nú síðdegis eftir ökuferð frá Reykjavík. Þyrlan sem er að gerðinni Aérospatiale AS-332L 1 Super Puma var pöntuð af Landhelgisgæslunni i júni 1994 og afhent hér ári seinna með mikilli viðhöfn.
,,Þetta er sannarlega mikill gleðidagur á Flugsafninu, nú þegar TF-LÍF er loksins komin á leiðarenda. Það hefur verið dálítill aðdragandi að þessu og mikil vinna liggur að baki, sem við höfum unnið í góðri samvinnu með Öldungaráði Landhelgisgæslunnar og Landhelgisgæslunni sjálfri" sagði Steinunn María Sveinsdóttir safnsstjóri á Flugsafninu í samtali við vef Vikublaðsins.
Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafnsins
,,Öldungaráð Landhelgisgæslunnar hafði frumkvæði að því að þyrlan yrði varðveitt og hafði samband við okkur þegar ljóst var að hún yrði seld. Sænska fyrirtækið Ex-Change Parts AB sem keypti TF-LÍF, tók úr henni hluti sem þóttu nýtilegir og gáfu síðan Flugsafninu þyrluna af miklum góðhug. Þeir hafa einnig gefið safninu varahluti sem nýtast til að gera hana sýningarhæfa og munu Eimskip og Samherji aðstoða okkur við flutninginn á þeim til landsins. ET-flutningar voru svo rausnarlegir að flytja þyrluna norður fyrir okkur, og erum við öllum þeim sem að verkefninu koma afskaplega þakklát," bætti Steinunn María við.
Á Facebooksíðu Landhelgisgæslunar var sagan rifjuð upp:
,,Koma Lífar til Landsins árið 1995 olli straumhvörfum í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar. Þyrlan var mun stærri og öflugri en þær sem fyrir voru. Ekki leið á löngu þar til kaupin voru búin að sanna gildi sig því á tæpri viku í mars árið 1997 var 39 skipbrotsmönnum bjargað um borð í þyrluna þegar Víkartindur, Þorsteinn GK og Dísarfell fórust.
Við spurðum Steinunni Maríu um framhaldið. Hvenær getur þú boðið gestum að skoða þessa merkilegur viðbót við safnið? ,,Núna er TF-LÍF komin á safnið og gestir okkar geta skoðað hana strax á laugardaginn en safnið er opið á laugardögum kl. 13-16 á veturna. Flugsafnið verður einnig opið alla páskana og það styttist í að sumaropnun taki gildi. Við munum vinna að því að gera hana sýningarhæfa í vor og sumar, og koma henni síðan fyrir á varanlegum stað síðsumars. Gestir verða fyrst um sinn að líta á hana sem „verk í vinnslu“, og það verður gaman að sjá hana taka á sig endanlega mynd." sagði Steinunn María kampakát að endingu.