Er tæplega 170 ára sögu lokið?
Eins og fram hefur komið hefur prentsmiðjan Ásprent Stíll á Akureyri hætt starfsemi. Skiptastjóri tilkynnti starfsfólki þetta á fundi í byrjun vikunnar en hjá fyrirtækinu störfuðu um 20 manns. Eins og blaðið greindi frá í síðustu viku var Ásprent tekið til gjaldþrotaskipta og fékk starfsfólk ekki greidd út laun núna um síðustu mánaðarmót. Rekstur félagsins hefur verið þungur síðustu misseri og áhrif COVID-19 faraldursins hefur haft afgerandi neikvæð áhrif. Tilraunir til fjárhagslegrar endurskipulagningar með viðskiptabanka félagsins tókust ekki.
Jón Ólafur Sigfússon er fyrrum framleiðslustjóri hjá Ásprent til margra ára en hann starfaði við prentiðn á Akureyri allan sinn starfsferil eða í rúm 50 ár. Hann segir lokun fyrirtækisins vera afar sorglega.
Sorglegur endir
„Þetta var ömurlegur dagur fyrir alla viðkomandi aðila þegar starfsemin hætti og sorglegur endir á sögu prentiðnaðar á Akureyri,“ segir Jón Ólafur. „Saga prentunar í bænum er afar löng og hér var langöflugasta prentsmiðjan á landsbyggðinni, fínar vélar og fært fagfólk í starfi.“ Hann segir það vera mikið högg fyrir bæjarfélagið að Ásprent hætti starfsemi. „Hér hafa bæjarbúar og nágrannar getið gengið að góðri og vandaðri þjónustu, hvort heldur sem þurfti að fá prentuð ýmis smáverk, límmiða fyrir alls konar starfsemi, blöð eða stórar og vandaðar bækur. Vonandi sjá einhverjir sér fært að endurvekja þessa starfsemi því það er varla hægt að hugsa sér að í svona stóru samfélagi sé ekki hægt að reka prentsmiðju og veita þá þjónustu sem þarf í nútímasamfélagi“ segir Jón Ólafur.
Prentsmiðjustarfsemi frá árinu 1852
Með lokun Ásprents lýkur langri prentsmiðjustarfsemi á Akureyri sem má rekja alla leið aftur til ársins 1852 en þá var stofnuð prentsmiðja undir heitinu Prentsmiðja Norður- og Austurumdæmisins og hóf starfsemi í Aðalstræti 50 og ári síðar, 1853, hóf göngu sína fyrsta norðlenska blaðið, Norðri. Gekk þessi rekstur illa og 1879 urðu eigendaskipti og Björn Jónsson stofnaði nýja prentsmiðju sem hlaut nafnið Prentsmiðja Norðanfara. Sameinuðust síðar þessar tvær prentsmiðjur undir nafninu Prentsmiðja Björns Jónssonar og lauk þeirri starfsemi 1987. Árið 1901 stofnaði Oddur Björnsson nýja og mjög fullkomna prentsmiðju sem á fyrstu árunum bar nafnið Prentsmiðja Odds Björnssonar en breyttist í Prentverk Odds Björnssonar (POB) og var hún rekin til ársins 1995.
Árið 1901 stofnaði Oddur Björnsson nýja og mjög fullkomna prentsmiðju sem á fyrstu árunum bar nafnið Prentsmiðja Odds Björnssonar en breyttist í Prentverk Odds Björnssonar (POB) og var hún rekin til ársins 1995. Fremstur á myndinni í hvítri skyrtu og með slaufur er Sigurður Oddsson, sonur Odds Björnssonar, sem var lengi prentsmiðjustjóri.
Þekking og reynsla sameinaðist í Ásprent
Árið 1975 stofnaði Árni Sverrisson prentsmiðjuna Ásprent og rak hana til ársins 1979. Þá keyptu hjónin Rósa Guðmundsdóttir og Kári Þórðarson prentsmiðjuna. Var hún fyrst til húsa í Kaupvangsstræti, síðar í Brekkugötu en 1988 flutti þau sig í Glerárgötu 28 þar sem prentsmiðjan var alla tíð síðan. Árið 1995 keyptu þau rekstur POB og fluttu í Glerárgötuna og fylgdu þá með margir starfsmenn sem urðu síðar þungamiðja í starfseminni. Ásprent Stíll ehf. var stofnað í núverandi mynd 1. september 2003 með sameiningu prentsmiðjunnar Ásprents og auglýsingastofunnar og skiltagerðarinnar Stíls. Síðan þá hafa nokkur prentfyrirtæki runnið inn í Ásprent og má þar nefna Alprent (áður Valprent stofnað 1962), Límmiða Norðurlands, Prenttorg og Stell. Það má því segja að í Ásprenti hafi sameinast þekking og reynsla sem byggð hefur verið upp í prentiðnaði á Akureyri á liðnum áratugum.
Dagskráin, Vikublaðið og Skráin koma áfram út
Síðastliðið sumar kom Ísafoldarprentsmiðja inn í hluthafahóp Ásprents með það að markmiði að efla framleiðslu og vöruframboð Ásprents. Við þann samruna komst Ásprent Stíll að samkomulagi við Útgáfufélagið ehf. um kaup á miðlastarfsemi Ásprents en undir hana fellur útgáfa á Dagskránni, Skránni og Vikublaðinu. Tekið skal fram að allir þessar miðlar munu halda áfram að koma út í óbreyttri mynd og hefur lokun Ásprents ekki áhrif á útgáfu þessara miðla.
-þev
Heimildir: Prentarinn 44. Árg., Saga Akureyrar II. Bindi.