Sverre ráðinn framkvæmdastjóri ÍBA
Sverre Andreas Jakobsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) og mun hann hefja störf þann 2. maí nk. Sverre tekur við starfinu af Þóru Leifsdóttur sem mun þó áfram starfa á skrifstofu bandalagsins. Frá þessu er greint á Facebooksíðu ÍBA. Þar segir að Sverre sé með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, auk mastersgráðu í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Árósum. Þá hefur hann einnig menntað sig í fjármögnun og fjárfestingum fyrirtækja, arðsemisgreiningu, enskri ritun og vinnusálfræði.
„Sverre er íþróttaáhugamönnum að góðu kunnur, en hann á að baki glæsilegan feril sem handknattleiksmaður. Hann var atvinnumaður í handknattleik í Þýskalandi í mörg ár og á að baki 182 landsleiki með A-landsliði Íslands. Sverre tók þátt í fjórum heimsmeistaramótum og fjórum Evrópumótum með landsliðinu og vann til bronsverðlauna með liðinu á Evrópumótinu í Austurríki árið 2010. Þá hefur Sverre tekið þátt í tvennum Ólympíuleikum; hann er einn „silfurdrengjanna“ frá því í Peking 2008, þar sem landslið Íslands varð í öðru sæti, og var einnig í liðinu sem tók þátt í Ólympíuleikunum í London 2012.
Hann hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari og bikarmeistari í þrígang. Sverre hefur einnig verið handknattleiksþjálfari, bæði hjá yngri flokkum og meistaraflokki. Sverre var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu ásamt fleiri landsliðsmönnum árið 2008, eftir árangurinn í Peking. Sverre hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og starfar í dag sem sérfræðingur á fyrirtækjasviði Enor á Akureyri, auk þess að þjálfa meistaraflokk Akureyrar – handboltafélags. Sverre er giftur Sveinbjörgu Eyfjörð Torfadóttur og eiga þau þrjú börn,“ segir í umsögn um Sverre.