27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Sveitarstjóri Norðurþings kynnti sér stækkun Silfurstjörnunnar
Verklegum framkvæmdum við stækkun landeldisstöðvar Fiskeldis Samherja í Öxarfirði, Silfurstjörnunnar, miðar vel áfram. Katrín Sigurjónsdóttir nýr sveitarstjóri Norðurþings kynnti sér framkvæmdirnar, sem eru þær viðamestu í sveitarfélaginu á þessu ári. Hún segir að stækkunin komi til með að styrkja atvinnulífið á svæðinu, enda Silfurstjarnan stærsti vinnustaðurinn í Öxarfirði á eftir sjálfu sveitarfélaginu. Frá þessu er greint á heimasíðu Samherja.
Góður undirbúningur
Nærri lætur að eldisrými og framleiðsla Silfurstjörnunnar tvöfaldist eftir stækkun, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn af laxi á ári. Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri Fiskeldis Samherja í Öxarfirði segir að undirbúningur hafi verið góður og þess vegna sé sjálf uppbyggingin hnitmiðaðri en ella.
Helmingi stærri ker
„Þetta gengur ágætlega, nokkrir verkþættir hafa verið flóknari en við gerðum ráð fyrir í upphafi auk þess sem dráttur hefur orðið á aðföngum í sumum tilvikum eins og algilt er í flestum framkvæmdum vegna stríðsátaka og heimsfaraldursins. Við erum núna að horfa til þess að fyrsta kerið verði tekið í notkun í mars á næsta ári en þau verða fimm talsins og eru um helmingi stærri en kerin sem fyrir eru. Lagnir í jörðu eru svo að segja klárar og framkvæmdir við tæknirými hefjast senn. Sjódæluhúsið er tilbúið og vinna við lagnir frá húsinu eru að hefjast. Það er spennandi að sjá þetta allt saman verða að veruleika, þessa dagana eru starfsmenn Slippsins á Akureyri að undirbúa kerin þannig að hægt verði að mála þau. Mér telst til að í dag séu starfsmenn á vegum verktaka fjórtán, þannig að það er ansi líflegt hérna þessar vikurnar og mánuðina.“
Stækkunin skilar sér í þingeyska hagkerfið
Katrín Sigurjónsdóttir er nýr sveitarstjóri Norðurþings. Hún kynnti sér stöðu framkvæmdanna í vikunni.
„Mér líst mjög vel á þetta allt saman. Silfurstjarnan er rótgróið fyrirtæki, sem þýðir að með árunum hefur safnast upp verðmæt þekking meðal starfsfólksins, sem nýtist vel við framkvæmdirnar og síðast en ekki síst til framtíðar. Öxarfjörður hentar afskaplega vel til landeldis, hérna er nóg af heitu og köldu vatni og stutt er í hreint og tært Atlantshafið. Stærsti verktakinn er byggingafélagið Rein í Norðurþingi, auk þess sem fjöldi smærri verktaka í sveitarfélaginu koma að stækkuninni. Allt þetta skilar sér með einum eða öðrum hætti beint inn í þingeyska hagkerfið.“
Stækkunin styrkir atvinnulífið
„Fyrir mig var þessi heimsókn ákaflega ánægjuleg. Ég fylgdist vel með byggingu nýs fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík, þar var afskaplega myndarlega staðið að öllum þáttum. Sama er uppi á teningnum hérna í Öxarfirði. Síðan bind ég auðvitað vonir við að starfsemin skapi önnur tækifæri í atvinnu- og búsetumálum hérna á svæðinu í framtíðinni. Ég heyri ekki annað á íbúunum en að stækkunin komi til með að styrkja atvinnulífið og svæðið allt,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir.