Svæðið við Torfunef stækkar Sala á lóðum fyrirhuguð í vetur
Sala á lóðum á nýrri uppfyllingu við Torfunef hefst á komandi vetri. Framkvæmdir við stækkun svæðisins frá því sem var hófust í mars og gert ráð fyrir að verktakinn, Árni Helgason ehf í Ólafsfirði ljúki sínu verki þegar líður á haustið.
Pétur Ólafsson hafnarstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands segir að allt hafi gengið samkvæmt áætlun en svæðið hefur verið stækkað frá því sem var, verður í allt um 0,9 hektarar að stærð. Nýtt og dýrmætt svæði verði til við miðbæ Akureyrar sem opni möguleika á skemmtilegu mannlífi á besta stað, en gera megi ráð fyrir að nýja svæðið verði mikið aðdráttarafl bæði fyrir heima- og ferðamenn.
Fjölbreytt útirými með sjö byggingum
Efnt var til hugmyndasamkeppni um nýtt skipulag við Torfunef og hlaut tillaga frá Arkþing/Nordic fyrstu verðlaun í þeirri samkeppni. Meginatriði vinningstillögu Arkþing/Nordic felst í fjölbreyttum útirýmum sem mótuð eru með sjö byggingum, ólíkum að stærð og formi. Þær mynda húsaröð og aðdraganda að Hofi, en gönguleiðin þangað er endurbætt á áhugaverðan hátt. Þessi nýja byggð myndar fjölbreytta bæjarmynd séð frá Pollinum auk þess sem götumynd Glerárgötu er mótuð m.a. með útrýmum mót vestri. Þjónustuhúsi hafnarinnar er komið fyrir undir settröppum sem snúa að vel mótuðu viðburðatorgi og er gert ráð fyrir tengingu við innirými syðstu húsanna.
Mikill áhugi?
„Það hefur allt gengið að óskum og við erum mjög spennt fyrir því að þetta svæði fari að taka á sig mynd, enda lengi verið að dagskrá að ráðast í endurbætur á þessu svæði,“ segir Pétur. Gert er ráð fyrir að verkinu verði lokið þegar kemur fram á haustið, „og þá látum við þetta síga og jafna sig í vetur en tökum upp þráðinn næsta vor og klárum það sem eftir er,“ segir hann.
Lóðir verða settar í sölu á komandi vetri. Búist er við miklum áhuga fyrir að kaupa lóðir á svæðinu.„Við gerum ráð fyrir að kaupendur lóða fari að huga að byggingum sínum með vorinu og að fyrstu húsin fari að rísa eftir rúmt ár,“ segir hann.