27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Sumir eiga ekki nesti fyrir börnin í skólann
mth@vikubladid.is
„Fólk er virkilega að berjast í bökkum. Það koma inn beiðnir strax fyrsta dag mánaðarins,“ segir Sigrún Steinarsdóttir umsjónarmaður síðunnar Matargjafir á Akureyri og nágrenni. Beiðnir hafa undanfarið streymt inn og virðist sífellt fjölga þeim sem þurfa aðstoð við að fá ofan í sig og sína. Nokkuð er um að fólk ekki pening til að kaupa nesti fyrir börn sín í skólann.
Sigrún segir að staðan hafi verið á þann veg undanfarnar vikur að allt hafi hækkað umtalsvert nema launin. Matarverð sé mjög hátt, leiga hafi hækkað og vextir á lánum. Það setji mark sitt á útgjöld heimilanna og þau sem eru í viðkvæmri stöðu verði verst úti. Ekkert megi þar út af bregða. Allt óvænt sem upp komi, tannlæknaferðir sem dæmi geti sett heimilisrekstur á hliðina. „Það virðist líka svo komið í okkar samfélagi að það séu forréttindi að hafa börn í íþróttum, það fylgir mikill kostnaður við iðkun margra íþróttagreina.“
Við heimili Sigrúnar er kistill þar sem hægt er að koma með eða sækja matvæli af ýmsu tagi. Segir Sigrún ekki óalgengt að sumir komi í slíkar ferðir að nóttu til. Þá eru minni líkur á að til þeirra sjáist. „Margir senda líka póst með hjálparbeiði á nóttunni, þá kannski búnir að liggja andvaka af peningaáhyggjum.
Sigrún segir frá því að hafa fengið beiðni um aðstoð þar sem þannig var ástatt að rúmlega 100 krónur voru til á reikningum heimilisins þegar búið var að greiða reikninga. Þar á bæ var ekki til peningur til að kaupa nesti í skólann. „Það hefur komið fram að mörgum þykir mikill munur á því að vera með barn í leikskóla og grunnskóla, en ekki þurfti að senda leikskólabörnin með nesti eins og í grunnskólann. Ein hafði borgað um 50 þúsund krónur fyrir dóttur sína vegna máltíða í skóla og fyrir frístund.
„Sumir nefna í póstum til mín að þeir hafi ekki efni á að gera sér dagamun í tengslum við afmæli,“ segir Sigrún og bætir við að flestum þykir mjög erfitt að hafa samband og biðja um hjálp. „Staðan er bara þannig að ég verð að játa mig sigraða og biðja um aðstoð,“ segir í einu bréfi til Sigrúnar. Fólk nefnir hækkaða húsaleigu, hátt verð á bensíni, matvælum, verðbólguna, ofgreiðslukröfur frá TR og fleiri ástæður fyrir því að það vantar aðstoð með matvæli. Lækna- og lyfjakostnaður gerir líka strik í reikning sumra. Laun hins vegar hækki ekki.
Tekjulágum verði hlíft við skörpum verðhækkunum
Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar skrifaði grein á vef Vikublaðsins um málefnið og segir að það ætti að vera forgangsmál hjá Akureyrarbæ að vinna að auknum jöfnuði. Vitað sé að ákveðnir hópar séu í erfiðari stöðu en aðrir, en þeir sem erfiðast eiga öllu jafna séu einstæðir foreldrar, innflytjendur og ungt fólk. Börn úr þessum hópum séu útsett fyrir fátækt. „Við vitum líka,“ segir Hilda Jana „að við getum tekið ákvarðanir út frá þessari vitneskju og jafnað stöðuna.“
Nefnir hún að í forsendum vegna fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir að hækka allar gjaldskrár um 10% nema leiksskólagjöld sem standa eigi í stað. Leggur hún til að tekjulágum barnafjölskyldum verði hlíft við þessum skörpu verðhækkunum og frekar verði horft til þess að lækka gjöld á þá hópa. „Það er líka hægt að gera ýmislegt annað, t.d. hækka fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins, fjölga félagslegum leiguíbúðum og vinna hratt og örugglega að aðgerðum gegn sára fátækt barna.“