Stórefla íþróttir í skólum og stutt betur við afreksfólk
Ný stefna Akureyrarbæjar og ÍBA í íþróttamálum til ársins 2022 var samþykkt í bæjarstjórn í byrjun febrúar. Stefnan byggir á framtíðarsýn í íþróttamálum Akureyringa þar sem áhersla er lögð á almenningsíþróttir, lýðheilsumál, samvinnu íþróttafélaga, íþróttaaðstöðu, afreksstarf, samspil íþrótta og skóla og íþróttir og ferðaþjónustu.
Meðal annars á að stórefla íþróttir í skólum bæjarins en lítið formlegt samstarf hefur verið á milli íþróttafélaga á Akureyri og skólasamfélagsins. Efla og auka á áskoranir í íþróttakennslu og leikfimi í skólum, hrint verði í framkvæmd áformum um íþróttaskóla barna þannig að börn í yngri aldurshópum geti kynnst fjölbreyttum tegundum íþrótta í framhaldi af og í tengslum við skólatíma. Byggðar verði hreystibrautir við alla grunnskóla á Akureyri og sett verði á laggirnar tilraunaverkefni um íþróttagrunnskóla þar sem sérstök áhersla er lögð á íþróttir og heilsu. Þá eiga allir grunnskólanemendur að fá a.m.k. eina klst. á dag í íþróttum, hreyfingu eða annarri heilsueflingu á skólatíma.
Fleiri fullorðnir meta heilsu sína slæma
Þá á að gera á iðkun íþrótta að sjálfsögðum lífsstíl bæjarbúa og stuðla þannig að bættum lífsgæðum þeirra. Samkvæmt lýðheilsuvísum embættis landslæknis fyrir Akureyri eru hlutfallslega fleiri fullorðnir sem meta líkamlega heilsu sína slæma. Einnig er lægra hlutfall barna í 8.–10. bekk með hæstu gildi á vellíðanarkvarða og hlutfallslega fleiri fullorðnir eru með hæstu gildi á streitukvarða, segir í skýrslunni. Meðal aðgerða mun Akureyrarbær hvetja íbúa til að nýta sér göngu- og hjólreiðastíga í stað vélknúinna ökutækja, fjölgað verði valkostum utandyra til íþróttaiðkunar fyrir almenning og hvatt verður til þess að teknir verði upp samræmdar heilsufarsmælingar á vinnustöðum á Akureyri.
Færri en öflugri félög
Aðildarfélög ÍBA á árinu 2017 voru samtals 23 sem buðu upp á 49 íþróttagreinar. Þetta þýðir að mörg félög eru með litla umgjörð, oft tiltölulega fáir iðkendur og skortur á stöðugleika í stjórnunarskipulagi. Í nýrri stefnu er lagt upp með að starfrækt verði færri, stærri og faglegri fjölgreinafélög í framtíðinni. Hver íþrótt sé aðeins æfð í einu félagi fyrir utan handknattleik og knattspyrnu. Aðildarfélögum ÍBA verður ekki fjölgað á komandi árum og nýjum félögum um íþróttastarfsemi verði beint inn í önnur aðildarfélög sem deildir.
Skapa afreksfólki svigrúm
Þá á einnig að styðja betur við afreksfólk í íþróttum. Akureyri hefur í gegnum tíðina alið upp fjölmarga afreksmenn á vettvangi íþrótta. Skapa á afreksíþróttafólki í bænum svigrúm og umgjörð til að ná eins langt í sinni íþrótt eins og kostur er. ÍBA mun skilgreina árlega afrekshóp Akureyrar og að afreksíþróttamenn í framhaldsskóla eigi möguleika á sumarvinnu hjá Akureyrarkaupstað sem gerir þeim kleift að æfa íþrótt sína í samræmi við æfingaáætlanir.