Stilling styrkir barnadeild SAk um eina milljón
Um þessar mundir eru tuttugu ár síðan Stilling opnaði verslun sína á Akureyri. Af því tilefni ákvað stjórn félagsins að afhenda barnadeild sjúkrahússins á Akureyri styrk að fjárhæð eina milljón króna til kaupa á ómtæki. Með þessu vill félagið leggja sitt af mörkum til samfélagsins og þakka með því góðar viðtökur í áranna rás.
Á myndinni hér að ofan má sjá Áslaugu Stefánsdóttur, starfandi stjórnarformann Stillingar og aðaleiganda, afhenda Jóhanni Rúnari Sigurðssyni stjórnarmanni Hollvinasamtaka sjúkrahússins gjöfina. Þess má geta að Áslaug er 92 ára gömul og enn í fullu fjöri og einnig má nefna að Jóhann var fyrsti verslunarstjóri Stillingar á Akureyri. Þess ber að geta að Hollvinasamtökin leggja samsvarandi upphæð á mót gjöf Stillingar til að brúa bilið á kaupunum á Ómtækinu sem mun verða bylting á barnadeildinni og spara tíma til rannsókna og stytta bið, jafnvel bjarga lífi þar sem hægt verður að sjá fyrr hvað er að sjúklingnum.
Stjórn Hollvina þakkar Áslaugu starfandi stjórnarformanni Stillingar sem og öðrum er að þessu verkefni komu.