Stella lítur dagsins ljós
mth@vikubladid.is
„Það var ómetanlegt að fá Stjána með í þessa ferð, það þekkir enginn þessi skip betur en hann,“ segir Sigfús Ólafur Helgason sem er í forsvari fyrir smíði á líkani af Stellunum svonefndu, skipum sem Útgerðarfélag Akureyringar keypti árið 1973 frá Færeyjum.
Skipin hétu þá Stella Karina og Stella Kristina, en í eigu ÚA Svalbakur og Sléttbakur. Stellurnar voru smíðaðar í Noregi á árunum 1968 og 1969.
Sjá einnig: Smíðar líkan af Stellunum
Stjáni sem hér er nefndur er Kristján Halldórsson, skipstjóri hjá ÚA um langt árabil og stýrði m.a. þessum skipum, Svalbak og Sléttbak. Þeir Sigfús og Kristján gerðu sér ferð til Dalvíkur á dögunum að líta á framgang verkefnisins, en Elvar Þór Antonsson er að smíða líkanið. „Það gengur mjög vel og allt er samkvæmt áætlun, bæði smíðavinnan og söfnunin, en segja má að við séum komin fyrir vind með hana,“ segir Sigfús.
Stefnt er að því að halda heilmikla veislu þegar líkanið verður tilbúið en dagsetningin er 1. Nóvember á þessu ári. Þann dag sigldu skipin til nýrrar heimahafnar í fyrsta sinn frá Færeyjum. „Það verður veisla, svo mikið er víst. Það er frábært að vinna að þessu verkefni en þessi skip voru á sinni tíð stór hluti af atvinnusögu Akureyrar.“