6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Starfsfólki verslana sem vinna á frídegi verslunarmanna á að greiða stórhátíðarkaup
„Í aðdraganda frídags verslunarmanna eru iðulega margir á faraldsfæti og helgin sjálf stærsta ferðahelgi ársins. Þessa daga er mikið álag á verslunarmönnum og dagurinn í dag, sem upphaflega var hugsaður sem orlofsdagur verslunarmanna, er nú stórhátíðardagur. Starfsfólki verslana sem sinnir vinnu á frídegi verslunarmanna ber því að greiða stórhátíðarkaup samkvæmt kjarasamningi,“ skrifar Eiður Stefánsson formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri í pistli sem birtist á vefsíðu félagsins.
Eiður skrifar:
Á árum áður nutu kaupmenn mikillar virðingar, þeir sigldu erlendis til að sækja menntun í verslunarfræðum og komu reynslunni ríkari heim. Í þá daga voru verslanir oft kenndar við eigendur sína og enn eru einhverjar í rekstri eins og t.d. Verslun Guðsteins Eyjólfssonar sem stofnuð var árið 1918. Samhliða tækniþróun og auknum samgöngum hafa verslanir og verslunarhættir þróast mikið. Það gefur auga leið að störf verslunarmanna hafa sömuleiðis tekið breytingum og aðrar kröfur gerðar til þeirra í dag en fyrir ríflega 100 árum.
Menntun á sviði verslunar
Til að mæta þessum kröfum vann Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) ásamt Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks (SVS) lengi að því að koma á fagnámi verslunar og þjónustu. Loks árið 2018 var diplómanámi í viðskiptafræði og verslunarstjórnun komið á lagginar í samstarfi við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík með aðkomu fulltrúa Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks. Námið er fyrsta sinnar tegundar hér á landi og hafa 64 nemendur verið skráðir til náms frá upphafi.
Í kjölfarið var þróað nám í verslun og þjónustu á famhaldsskólastigi og árið 2020 hóf fyrsti hópur göngu sína í Fagnámi og raunfærnimati í verslun og þjónustu í samstarfi við Verzlunarskóla Íslands, Mími, VR/SVS, Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Frá upphafi hafa 69 nemendur innritast í námið og níu útskrifast með fagbréf.
Mikil samstaða hefur verið innan SVS um þróun á þessum námsleiðum, en í SVS sitja fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins og LÍV/VR. En samstaðan er ekki til staðar þegar meta á námið til launa og ekki náðist samkomulag við gerð síðustu kjarasamninga um að það skili sjálkrafa launahækkun. Við gerð næstu kjarasamninga verður þetta tekið fyrir á ný og ég vona að fyrirtæki innan Samtaka atvinnulífsins átti sig á því að hversu öfluga starfsmenn atvinnulífið er að fá að námi loknu.
Þekking og þjónusta verslunarfólks er virðingarverð og sjálfsagt að meta faglært fólk innan stéttarinnar til hærri launa. Ég óska verslunarfólki og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og vona að öll skili sér heil heim frá þessari miklu ferðahelgi.