Starfsemi SAk dróst saman í fyrra

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri.

Starfsemi síðasta árs á Sjúkrahúsinu á Akureyri markaðist mikið af Covid-19. Fram kemur á vef sjúkrahússins að sag- og göngudeildarþjónusta hafi dregist saman.

Komur á dagdeildir voru um 10% færri miðað við fyrra ár, þó mjög misjafnt á milli deilda. Legudögum fækkaði um 12%. Mest fækkaði legudögum á Kristnesspítala en legudagar á lyflækningadeild og gjörgæsludeild voru óbreyttir á milli ára.

Fæðingar voru 389 sem er fækkun um um 3,5%. Skurðaðgerðum fækkaði um 22% og voru 3.043. Sjúkrahúsið hefur frá árinu 2016 tekið aukinn þátt í átaki stjórnvalda til að stytta biðtíma eftir völdum aðgerðum. Vega gerviliðaaðgerðir þar þyngst en gerðar voru um 130 aðgerðir umfram þær 200 sem gerðar voru árlega fyrir þann tíma.

Komum á bráðamóttöku fækkaði um 16,6%. Almennar rannsóknir voru 7,2% færri og myndgreiningum fækkaði um tæp 17% en aðrar rannsóknir voru nokkru færri eða svipaðar milli ára. Farið var í 623 sjúkraflug á móti 766 flugum árið áður sem er fækkun um 19%.

Nýjast