Starað í hyldýpið
Egill P. Egilsson skrifar
„Hálfnað verk þá hafið er,“ segir gamalt íslenskt máltæki en merkingin er nokkuð augljós.
Þann 18. nóvember, ekki síðast liðinn heldur árið 2021 var fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili tekin á Húsavík. Allt frá því fregnir fóru fyrst að berast um fyrirætlanir ríkis og sveitarfélaga í þingeyjasýslu um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis hef ég ritað ógrynni frétta og pistla um málið.
Ég hefi ekki reiður á því hvað ég hef vitnað oft til þessa „nýja“ hjúkrunarheimilis en ég hef gert það svo oft og svo lengi að ég velti því óneitanlega fyrir mér hvort það geti enn þá talist nýtt, enda þótt fyrsti sementspokinn hafi enn ekki verið opnaður.
Katrín Sigurjónsdóttir var ráðin sveitarstjóri Norðurþings á síðasta ári. Mögulega endist hún nógu lengi í embætti til að klippa á borðann þegar „gamla“ hjúkrunarheimilið á Húsavík verður opnað. Vonandi verður hún samt ekki fyrsti heimilismaðurinn.
Í dag eru 16 mánuðir og 23 dagar frá því fyrsta skóflustungan var tekin, síðan þá hefur holan sem skilin var eftir gapað á Húsavíkinga. Ekki veit ég hvað hún er djúp en ég veit hvað hún er löng… þ.e. biðin eftir því að eitthvað rísi upp úr henni. Engin veit hins vegar hvað þessi bið verður löng því þögnin frá ríkinu er gapandi, rétt eins og holan sjálf. Ef þú starir lengi í hyldýpið starir hyldýpið á móti, sagði heimsspekingurinn Nietzsche fyrir margt löngu. Er ekki mál að þessari störukeppni linni?
Í Vikublaðinu er rætt við Hjálmar Boga Hafliðason, forseta sveitarstjórnar Norðurþings. Hann hefur vissar áhyggjur af því að framkvæmdirnar sem ættu að vera hafnar ofan í holunni lendi í niðurskurði sem boðaður var í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins. Hann segir reyndar líka að ekki hafi heyrst eitt einasta múkk frá ríkinu um að hætt verði við framkvæmdirnar. Útboðsferlið á að vera hafið en er ekki! Hjálmar gat heldur ekki vitnað í nein svör frá ríkinu varðandi hvers vegna það ferli sé ekki farið af stað eða hvenær það mun hefjast.
Það liggur hins vegar fyrir að framkvæmdir á vegum ríkisins sem ekki eru þegar hafnar verða settar á ís. Eftir stendur spurningin, Holan þar sem fyrirhugað hjúkrunarheimili á að rísa. Er sá gröftur nóg til þess að framkvæmdin teljist hafin og sleppur hjúkrunarheimilið þar af leiðandi við ískarið? Eða mun helsta verkefni Vinnuskólans á Húsavík í sumar vera að moka upp í helvítis holuna.
Egill P. Egilsson