20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
SSNE tekur enn eitt græna skrefið
SSNE hefur nú tekið upp á því að bjóða starfsfólki sínu að skrifa undir samgöngusamning og fá í staðinn umbun fyrir að ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti. Í frétt á vef samtakanna segir að ferðalög starfsfólks séu með stærstu losunarþáttum flestra vinnustaða og á því sé engin undantekning hjá SSNE. Því hefur verið gripið til þessa ráðs til að draga úr þessari losun.
Gerð samgöngusamninganna hjá SSNE er hluti af innleiðingu Grænna skrefa í starfsemi samtakanna og fellur afar vel að anda verkefnisins þar sem markmiðið er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum daglegrar starfsemi og bæta starfsumhverfið um leið.
„Við gerð samgöngusamninga er mikilvægt að hafa í huga að öll erum við ólík og búum við ólíkar aðstæður; við ferðumst mislangt til vinnu og veturnir á Norðurlandi geta reynst snúnir. Sum leggja hjólunum t.a.m. yfir dimmustu mánuðina en býðst þá að skrifa undir samgöngusamninga til styttri tíma í senn, taka pásu og byrja aftur. Önnur hjóla eða ganga alla daga, allan ársins hring, og býðst þá önnur gerð samnings. Auk samgöngusamningsins er áhersla lögð á að aðstaða sé til staðar fyrir hjólandi og gangandi; hægt sé að skipta um föt ef þurfa þykir og að geyma hjól þannig að þau séu örugg meðan á vinnutíma stendur,“ segir í frétt á vef SSNE.
Hér má svo finna upplýsingar og góð ráð um gerð samgöngusamninga.