27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Spenntur fyrir nýjum kafla í lífinu
mth@vikubladid.is
Mathöll verður opnuð í um 1000 fermetra húsnæði við Glerárgötu 28 á Akureyri eftir nokkra mánuði.„Það er nýr kafli að hefjast í mínu lífi og ég er mjög spenntur,“ segir Kristján Kristjánsson sem vinnur nú hörðum höndum að því að því að koma mathöllinni upp. Verið er að leggja lokahönd á teikningar og vætir hann þess að hægt verði að hefja framkvæmdir í húsnæðinu með haustinu.
Kristján er nýfluttur til Akureyrar frá Bretlandi, en sonur hans er við nám í bifvélavirkjun við Verkmenntaskólann á Akureyri og ákvað Kristján að flytja til hans. „Ég er hæst ánæður hér, það er góður andi í bænum, stutt í náttúruna og mér sýnist vera mikið um að vera allan ársins hring,“ segir hann. Kristján hefur verið viðloðandi veitinga- og skemmtanabransann frá 16 ára aldri og þekkir vel til.
„Þegar ég ákvað að flytja norður fór ég að skoða hvað væri í boði og sá að verið var að auglýsa þetta húsnæði með rekstur mathallar í huga,“ segir Kristján og sá strax að þetta væri eitthvað fyrir sig. „Staðsetningin er mjög góð, mikil umferð beggja vegna við húsið, um Glerárgötu og Hvannavelli en þar mun umferð aukast innan tíðar með opnun Krónunnar,“ segir hann.
Fjölbreytt úrval og mikil gæði
Í fremsta rýminu sem snýr út að Glerárgötu er hugmyndin að koma fyrir nokkrum litlum verslunum og leggja áherslu á bændamarkað, þ.e. þeir sem selja vörur beint frá sínu býli geti boðið varning sinn þar. Inni í miðrýminu verður mathöllin sjálf og stefnir Kristján að því að hafa þar 7 til 8 veitingastaði. „Það er mikill áhuginn, ég hef rætt við nokkra og margir hafa sett sig í samband og lýst yfir áhuga á að vera með. Minn útgangspunktur er að bjóða upp á fjölbreytt úrval og mikil gæði,“ segir hann.
Gamla prentsalnum Hvannavallamegin í húsinu verður breytt og þar hyggst Kristján setja upp veitinga og bjóða upp á eitthvað til skemmtunar með eins og pílu og eða karíókí.
Sögunni gerð verðug skil
Kristján nýtur aðstoðar Ingólfs Guðmundssonar hjá Kollgátu arkitektastofu við hönnun og einnig mun Sir Arnar Gauti leggja sitt lóð á vogarskálar þannig að útlitið verði eins og best verður á kosið. „Ég hef mikinn áhuga á að gera sögu þessa húss skil, hér var rekin prentsmiðja árum saman og mig langar að fá gamlar vélar til að skreyta húsakynni þannig að sagan komi sterkt fram,“ segir hann. Einnig er ætlunin að bjóða listamönnum að sýna verk sín á veggjum og hafa það fyrirkomulag að hægt verði að kaupa verkin beint af veggnum. „Ég er með alls konar hugmyndir og hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni,“ segir Kristján og finnur þegar að Akureyringar eru fullir eftirvæntingar á fá mathöll í bæinn.