Spennistöð á lóðinni færð til að skapa betra rými

Mynd/GN
Mynd/GN

mth@vikubladid.is

Akureyrarbær og Norðurorka hafa komist að samkomulagi um að skipta með sér grunnkostnaði vegna færslu á dreifistöð 23 en hún stendur syðst við Norðurgötu.

Dreifistöðin verður færð vegna áforma um að nýta lóðina undir byggingar og með því að færa stöðina skapast meira rými til að nýta lóðina. Grunnkostnaður færslunnar hefur verið metinn af Verkfræðistofunni Verkís sem telur að kostnaður nemi um 30 milljónum króna.

Allt frá árinu 2019 hefur verið til skoðunar hvernig standa megi að uppbyggingu á lóðunum Norðurgötu 5 og 7 og enduruppbyggingu lóðarinnar  Norðurgötu 3. Að mati skipulagsráðs Akureyrarbæjar er ein meginforsenda málsins að spennistöð sem er á þessu svæðið verði fjarlægð og ný stöð verði byggð í hennar stað á öðrum stað.

Deiliskipulag sem gerir ráð fyrir nýrri spennistöðvarlóð við Strandgötu hefur nú tekið gildi og því hægt að hefja undirbúning að niðurrifi núverandi spennistöðvar. Skipulagsráð hefur lagt til að bæjarráð samþykki að hefja undirbúning að niðurrifi spennistöðvarinnar við Norðurgötu.

Nýjast