20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Spennandi tímar blasa við flugi um Akureyrarflugvöll
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli til rúmlega 30 ára og mikill baráttumaður fyrir uppbyggingu flugvallarins segir spennandi tíma fram undan í flugi til og frá Akureyrarflugvelli.
„Það hefur lengi verið horft til þess í ferðaþjónustunni á Norðurlandi að minnka árstíðarsveifluna í komum ferðamanna til landsins. Það hefur náðst mikill árangur á höfuðborgarsvæðinu að draga úr þessari sveiflu. Hins vegar hefur ekki gengið eins vel að draga úr þessum árstíðarsveiflum á landsbyggðunum og þá sérstaklega eftir því sem fjær er farið,“ segir Njáll Trausti.
„Markaðstofa Norðurlands og Flugklasinn hefur unnið mjög góða vinnu um langt skeið og þar á bæ hefur mikil vinna verið lögð í það að koma á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll og þá sérstaklega að vetrarlagi. Í þeirri vinnu hefur verið að nást mikill árangur,“ segir hann og bendi m.a. á þau tíðindi sem bárust út í liðinni viku að EasyJet flugfélagið ætli að fljúga frá Gatwick flugvelli í London til Akureyrar frá og með lokum október og út mars á næsta ári.
Kontiki kynnti einnig fyrr í þessum mánuði að ferðaskrifstofan ætlaði að bjóða upp á vikulega ferðir frá Zurich í Sviss til Akureyrar frá janúar og út mars á næsta ári. Edelweiss flugfélagið sinnir því flugi. Voight Travel verður einnig með ferðir í beinu flugi frá Hollandi í febrúar og mars á næsta ári með svipuðum hætti og áður. Hollenska flugfélagið Transavia flýgur fyrir Voight. „Mitt mottó í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi er og hefur lengi verið: ,,Allt Ísland allt árið,“ segir hann.
Njáll Trausti segir a vissulega mjög leiðinlegt hvernig fór fyrir Niceair og þeirri miklu vinnu sem forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu sett í reksturinn. „Þetta mál er allt saman með hreinum ólíkindum samskipti Niceair við Hifly og síðan aftur samskipti Hifly við sína flugvélaleigu. Flug Niceair sýndi hins vegar hversu sterkur heimamarkaðurinn er hérna fyrir norðan. Ég sé mjög eftir Niceair, það er bara þannig.
Ásýnd breytist
Njáll Trausti bendir á að miklar framkvæmdir standi yfir á Akureyrarflugvelli sem geri hann betur í stakk búinn að taka við auknu flugi. „Framkvæmdir við flugstöðina standa yfir og nú seinni hlutann í maí hefur verið unnið að því að setja upp stálgrind hússins,“ segir hann en framkvæmdir við viðbyggingu flugstöðvar klárast að mestu fyrir lok þessa árs. Þá taka við framkvæmdir við endurbætur á gömlu flugstöðinni og stefnt á að þeim ljúki fyrir mitt næsta ári.
„Ásýnd flugvallarins mun breytast mikið á næstu vikum þegar farið verður í malbikunarframkvæmdir á flughlaðinu,“ segir hann en verktakafyrirtækið Nesbræður er um þessar mundir að klára vinnu við efra burðarlagið, við lagnir og olíugildru, en fyrirtækið á að skila af sér sínum verkþætti innan tíðar. Í framhaldinu hefst malbikun flughlaðsins.
Nýtt aðflug úr suðri
Undanfarin ár hefur verið unnið að því hörðum höndum að bæta aðflugin inn á báða flugbrautarenda. Ný aðflug hafa verið tekin í notkun vegna lendinga til suður og unnið er að bæta aðflug inn á suðurenda flugbrautarinnar, það er þegar lent er til norðurs.
„Með þessum framkvæmdum er verið að efla getu flugvallarins til að geta sinnt aukinni flugumferð með betri og öryggari hætti,“ segir Njáll Trausti en hann segir mikilvægt að huga að því að taka í notkun betra aðflug með lægri aðflugslágmörkum, þannig að hægt verði að lenda þegar lágskýjað er og dapurt skyggni. Þar sé einkum verið að horfa til stærri flugvéla.