Sögufélag Eyfirðinga Fjölbreytt efni í nýju riti Súlna

Fjölnismenn á ferð. Myndin er tekin á Þórunnarstræti, ofan Búðargils. F.v. Kristján Jónsson, …
Fjölnismenn á ferð. Myndin er tekin á Þórunnarstræti, ofan Búðargils. F.v. Kristján Jónsson, aftan við hann Júlíus Brjánsson, Pétur Pétursson, Úlfar Ragnarsson, Þór Sigurðarson, við hlið hans með svartan reiðhjálm Finnur Björnsson, fyrir framan þá Valdimar Valdimarsson, fremst Ragnar Ingólfsson, Sigurður Mikaelsson og Jóhannes Mikaelsson, aftar með fánann Björn Mikaelsson, við hlið hans Ásgeir Ásgeirsson. Myndin er í grein Jóns Ólafs Sigfússonar um Hestamannafélagið Létti.

Rit Sögufélags Eyfirðinga, Súlur, er komið út og færir fjölbreytt efni að venju. Kristín Aðalsteinsdóttir ræðir við listakonuna Rósu Kristínu Júlíusdóttur, Jón Ingi Cæsarsson rifjar upp Oddeyri æsku sinnar og hinn kunni hestamaður og söngvari, Þór Sigurðsson, fer með okkur um fjallgarðinn mikla sem skilur að Eyjafjörð og Fnjóskadal.  

„Stóra mix-málið“ vindur upp á sig í umfjöllun listmálarans Kristins G. Jóhannssonar um Morgankarlana á vegg, fjallað er um fyrsta tyggigúmmíið, Guðrún Sigurðardóttur segir sögu skólastjórans og baráttukonunnar Halldóru Bjarnadóttur og hestamaðurinn góðkunni, Jón Ólafur Sigfússon, rekur sögu Hestamannafélagsins Léttis.   Er þá fátt eitt talið af fjölbreyttu efni Súlna en að þessu sinni prýða ritið alls 17 lengri og styttri greinar, ríkulega myndum prýddar.

Nýir áskrifendur að Súlum eru boðnir velkomnir. Þeir sem áhuga hafa geta m.a. haft samband í netfangið jhs@bugardur.is.

Nýjast