Sláturtíð lokið hjá Kjarnafæði-Norðlenska á Húsavík

Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri hjá Kjarnafæði Norðlenska og einlægur stuðningsmaður Leeds U…
Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri hjá Kjarnafæði Norðlenska og einlægur stuðningsmaður Leeds Utd í enska boltanum segir sláturtíð hafa gengið vel en henni er nú nýlokið.

Sláturtíð er lokið hjá Kjarnafæði-Norðlenska á Húsavík og gekk almennt vel. Heldur færra fé var slátrað í haust en var í fyrra og þá var meðalvigt í víð lakari en var í fyrrahaust. „Sláturtíð er stórt verkefni og allir fegnir þegar henni er lokið þó svo að vel hafi gengið. Á þessari stundu er mér efst í huga þakklæti til allra sem þátt tóku, starfsfólks, verktaka og ekki síst bænda sem auðvitað eru lykillinn að því að allt gangi upp,“ segir Sigmundur Hreiðarsson framleiðslustjóri á sláturhúsi Kjarnafæðis-Norðlenska á Húsavík. 

 

Ríflega 83 þúsund fjár var slátrað á nýliðinni sláturtíð, sem er aðeins færra fé en var slátrað í fyrrahaust. Meðalþyngdin var 16,39 kíló, 0,87 kg minna en var í fyrra en Sigmundur segir samanburð við sumarið 2021 ekki sanngjarnan. „Meðalþyngd í fyrra var 17,26 kíló, sú næst hæsta í sögunni, það er aðeins haustið 2014 sem toppar það en þá var meðalþyngd 17,34 kíló,“ segir Sigmundur. 

Meðalþyngd hefur aukist um árin 

 

Hann nefnir að dilkar hafi um árin orðið æ vænni og fyrst og fremst megi rekja það til góðs ræktunarstarfs bænda. Sem dæmi bendir hann á árið 2004 var meðalþyngd 14,76 kíló, svo þyngdin hefur aukist jafnt og þétt, bændur leggja meiri áherslu á ræktun og það sem m.a. hefur breyst er að holdfylling er meiri en var á árum áður. Fita hefur haldist svipuð en það má ekki gleyma því að fitan er hluti af gæðunum. Mitt mat er að bændur hafa sannarlega verið að vinna sitt starf af kostgæfni, þó svo að á því séu alltaf nokkrar undantekningar,“ segir Sigmundur. 

Næst á dagskrá jólahangikjötið 

 

Nú þegar sláturtíð er lokið taka jólaverkefnin við, en Sigmundur segir að mikill metnaður sé fyrir hendi í fyrirtækinu að framleiða gæðavöru. „Við finnum til ábyrgðar, því vörur frá okkur eru á jólaborðunum flestra landsmanna,“ segir hann. Um 390 þúsund manns segir hann að bjóði upp á hangikjöt frá fyrirtækinu, en margir hafi kjöt frá fyrirtækinu í nokkur skipti yfir hátíðarnar. „Það hefur hin síðari ár færst í aukana að fólk hafi nýtt lambakjöt á jólaborðinu, t.d. hrygg og læri og á því sviði erum við líka sterk,“ segir hann. 

Nýjast