Skrá sögu Völsungs á rafrænu formi
Íþróttafélagið Völsungur hyggst ráða starfsmann í sumar við ritun og uppsetningu á sögu félagsins.
Markmiðið er að sagan verði á rafrænu formi og aðgengileg öllum að kostnaðarlausu. Byrjað verður að setja söguna á rafrænt form sumarið 2023 og verður vinnan áfangaskipt. Áfangarnir verði birtir eftir því sem unnið er að verkefninu og lokaáfanginn kynntur á 100 ára afmæli félagsins 12. apríl 2027.
Sett hefur verið á laggirnar Sögunefnd Völsungs en í henni sitja Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs, Ingólfur Freysson, Dóra Ármannsdóttir,Leifur Grímsson og Sóley Sigurðardóttir.
Ingólfur segir í samtali við Vikublaðið að hugmyndin hafi komið fram á fyrsta fundi nefndarinnar að hafa söguna á rafrænu formi. „Við teljum að það gefi bæði skemmtilegri og fjölbreyttari möguleika. Þar sem við getum tengt saman bæði textann, söguna og inn í þetta væri svo netslóðir sem menn geta smellt á og fengið upp myndir, leikskýrslur, viðtöl við félagsmenn sem við eigum og jafnvel upptökur af einhverjum viðburðum“ útskýrir Ingólfur og bætir við að hugmyndin sé að áfangaskipta verkefninu. „Við byrjum á að segja söguna frá 1900, aðdragandanum að stofnun félagsins árið 1927 og fram til 1960.“
100 ára afmælisnefnd mun hafa umsjón með ritunni og vera stuðningur við starfsmann við ritun.
Jónas Halldór segir að mikið sé til af heimildum, rituðum, í sögum, myndefni og hljóðsskrár svo eitthvað sé nefnt. „Markmiðið er að ná utan um þessar heimildir, skrá þær og koma þeim á form sem er aðgengilegt öllum. Því var ákveðið að hafa þetta rafrænt form í stað hefðbundinnar bókaútgáfu og gera þetta með rafrænum hætti. Þannig að hægt sé að fletta upp í sögunni á einfaldan hátt. Þannig teljum við að við gerum heimildirnar aðgengilegastar og söguna meira lifandi,“ segir Jónas og bætir við að stefnt sé á að birta fyrsta áfanga verkefnisins 12. Apríl 2024 á afmælisdegi Völsungs. „Síðan bætist alltaf við söguna á eftir því sem líður á árin og svo opnast þetta í heild sinn á 100 ára afmælisdaginn.“
Jónas segir að síðar meir verði auðveldara að halda áfram að skrá söguna beint inn á gagnasafnið um leið og henni vindur fram.
„Þetta verður mjög skemmtilegt. Í mínum huga held ég að rafræna formið sé skemmtilegra en að eiga þykka bók upp í skáp,“ segir Jónas að lokum.