Skógræktarfélag Eyfirðinga og Dalvíkurbyggð Samvinna fyrir samfélagið

Sveitarstjórinn í Dalvíkurbyggð, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, og formaður Skógræktarfélags Eyfirði…
Sveitarstjórinn í Dalvíkurbyggð, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, og formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, Sigríður Hrefna Pálsdóttir undirrituðu samninginn í blíðskaparveðri í Hánefsstaðaskógi í Svarfaðardal við minnismerki skógræktarmannsins og upphafsmanns reitsins, Eiríks Hjartarsonar.

Skógræktarfélag Eyfirðinga og Dalvíkurbyggð hafa undirritað styrktarsamning sem er til tveggja ára.

Skógræktarfélagið hefur unnið að því undanfarin ár að efla tengsl við fulltrúa sveitarfélaganna  þar sem skógar félagsins vaxa. Þegar eru fyrir hendi svipaðir samningar við Eyjafjarðarsveit og nýverið var skrifað undir samning við Svalbarðsstrandarhrepp. Markmiðið er að efla samvinnu og að félagið og sveitarfélagið hjálpist að við að bæta aðgengi og umhirðu í skógarreitunum og þannig auka ánægju skógargesta og styðja við lýðheilsu og hreyfingu.

 Upphafsmaður skógræktar að Hánefsstöðum var Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur en hann keypti jörðina um 1940 og hóf skógrækt 1946. Hann ánafnaði Skógræktarfélagi Eyfirðinga jörðina Hánefsstaði árið 1965.  Félagið seldi hana árið 1980 en hélt eftir skógarreitnum.

Árið 1999 var gerður samningur við Dalvíkurbyggð um að Hánefsstaðaskógur yrði útivistarsvæði Dalvíkinga og Svarfdælinga. Í því fólst að komið yrði upp snyrtingum, leiktækjum, grillaðstöðu auk göngustíga. Samningurinn var til 20 ára og sér SE um skipulag og yfirumsjón framkvæmda en Dalvíkurbyggð greiðir kostnað við þær.

Nýjast