Skógræktarfélag Eyfirðinga Ný flettisög gjörbyltir möguleikum til viðarvinnslu

Bergsveinn Þórsson og flettisöginn nýja    Mynd  Ingólfur Jóhannsson
Bergsveinn Þórsson og flettisöginn nýja Mynd Ingólfur Jóhannsson

„Það vorar snemma og við hlökkum til sumarsins, hjá okkur er fjölmörg verkefni á döfinni sem gaman verður að fást við,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga.

 Á liðnum vetri var gangsett ný og afkastamikil flettisög með öllum þeim besta búnaði sem völ er á. „Þetta tæki mun gjörbylta möguleikum okkar til viðarvinnslu, en við höfum nýtt vetrartímann til að ná tökum á henni, verið að læra inn á hana og sagað mikið magn timburs sem m.a. verður nýtt á leiksvæðum, í brúnargerð, á hjólastígum og eins á útivistarstíginn í Vaðlaskógi.“

Mörg verkefni framundan

Meðal þeirra verkefna sem unnið verður að á komandi mánuðum má nefna gerð nýs áningarstaðar í Laugalandsskógi og Hánefsstaðareit. Grisjun verður talsverð í Vaðlareit og frágangur vegna nýja útivistarstígsins mun líka taka tíma. „Við verðum svo með alls kyns viðburði til að gleðja gesti skóganna, skógargöngur og sveppagöngur sem dæmi og það er áhugi fyrir að endurvekja Leyningshóladaginn sem árvissa samkomu í skógarlífi framfirðinga. Við höldum skógardag í Kjarnaskógi um verslunarmannahelgi og það er á dagská alþjóðleg hlaupakeppni svo eitthvað sér nefnt,“ segir Ingólfur.

Unnið að bættum brunavörnum

 Ingólfur segir að megin vinna sumarsins verði tengd Kjarnaskógi, en til stendur að endurgera leiksvæðið á Kjarnavelli og  útbúa dvalarsvæði við snyrtingar í Kjarnakoti. „Við erum einnig að vinna að bættum brunavörnum en þar er að mörgu að hyggja, m.a. varðandi stígagerð og merkingum á flóttaleiðum, bættum búnaði og ýmislegt fleira,“ segir Ingólfur en nú næstu vikur verður áhersla lögð á að laga til í Kjarnaskógi svo hann geti með sóma tekið við þeim fjölmörgu gestum sem þangað leggja leið sína.

 

Nýjast