Skipsbjalla Harðbaks EA 3 komin til varðveislu á Akureyri, 44 árum eftir að skipið var selt í brotajárn
Útgerðarfélag Akureyringa keypti togarann Harðbak EA 3 frá Aberdeen í Skotlandi árið 1950. Á þessum tíma átti félagið fyrir tvo togara, Kaldbak EA 1 og Svalbak EA 2.
Seldur í brotajárn
Nýr Harðbakur lagðist að Oddeyrarbryggju á Akureyri annan jóladag 1950 og „gerðu margir sér tíðförult niður á tanga“, eins og segir í bókinni „Steinn undir framtíðar höll,“ sem er saga Útgerðarfélags Akureyringa 1945 – 199Harðbakur var stærri en hinir tveir togarar félagsins og auk þess var um borð fiskimjölsverksmiðja, sem var nýbreytni. Harðbakur var gerður út til ársins 1976 og var seldur þremur árum síðar í brotajárn.
Harðbakur EA 3.
Óvænt heimsókn
Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri Samherja fékk í fyrra óvænta heimsókn. Gesturinn tjáði Kristjáni að hann væri með skipsbjöllu Harðbaks, sem hann taldi að best væri varðveitt hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Með öðrum orðum, það fór ekki allt í brotajárn eins og álitið hafði verið, festiboginn fylgdi meira að segja bjöllunni góðu. ,,Þetta er einstakur dýrgripur í mínum huga og afskaplega ánægjulegt að skipsbjallan sé komin til varðveislu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Þökk sé þeim sem björguðu verðmætum áður en Harðbakur fór í brotajárn. Ekki síðri þakkir vil ég færa öllu því hagleiksfólki sem kom að gerð þessa einstaka listaverks sem nú er tilbúið,“ segir Kristján Vilhelmsson.
Leitaði til feðganna á Ými
Kristján gerði sér fljótlega ferð til hagleikssmiðanna Valdimars Jóhannssonar og Þengils Valdimarssonar á trésmíðaverkstæðinu Ými á Akureyri með ósk um að smíða fót undir bjölluna og festibogann. Í kjölfarið var hafist handa við að smíða, eftir teikningu og líkani Valdimars.
Listaverkið tilbúið til afhendingar „Ég kom bara með hugmyndina“
Þengill Valdimarsson segir að faðir hans, Valdimar, og Kristján eigi allan heiðurinn að verkinu. Valdimar, sem er 96 ára gamall, segir að verkefnið hafi verið afskaplega ánægjulegt og gefandi.
„Já, já, ég er sáttur við útkomuna en vinnan var á köflum nokkuð snúin því bjallan og boginn eru samtals um 40 kíló. Það fór töluverður tími í þetta en þannig er það með alla hluti sem ætlað er að endast um ókomna framtíð. Það er aðallega Kristján Vilhelmsson sem á heiðurinn af þessu. Ég kom bara með hugmyndina og hafði umsjón með smíðinni, það er allt annað mál.“
Kría og grjót úr fjöruborðinu heima á Dalvík
Á fótstykki verksins að framanverðu er tálguð kría eftir Andrínu Guðrúnu Jónsdóttur listakonu í Hvergerði. Krían stendur á fjörusteini og að aftan er annar minni. Báða steinana hafði Valdimar varðveitt í 70 til 80 ár. Vel er hægt að hugsa sér að minni steinninn tákni egg kríunnar.
Listaverkið.
„Ef maður er nálægt sjó er krían örugglega ekki fjarri. Ég er alinn upp við fjöruborð og þar voru alltaf kríur, þannig að mér fannst ekkert annað koma til greina. Steinana hef ég varðveitt frá því ég var strákur að leika mér í fjöruborðinu við Dalvík,“ segir Valdimar Jóhannsson.
Bjallan komin heim
Kristján Vilhelmsson segir að verkinu verði fyrst um sinn komið fyrir í húsakynnum Útgerðarfélags Akureyringa við Fiskitanga. „Okkur finnst eðlilegast að hafa þetta glæsilega listaverk sem næst starfsfólki ÚA og við komum því fyrir á góðum stað í fiskvinnsluhúsinu. Hvað framtíðin ber í skauti sér er ómögulegt að segja, við látum tímann vinna með okkur í þeim efnum en við getum sagt að skipsbjallan sé komin heim eftir langa fjarveru.“
Kristján Vilhelmsson við bjölluna góðu.
Hagleiksfólk kom að verkefninu
Fjöldi fólks kom að smíði listaverksins, auk feðganna á Ými og Andrínu Guðrúnar Jónsdóttir. Ingi Hansen og félagar hjá N Hansen á Akureyri gerðu stálstyrkingar sem eru innan í fætinum. Sigþór Heimisson hjá Pólyhúðun á Akureyri hreinsaði festi-bogann en á honum voru nokkur lög af málningu. Feðgarnir í Ásverki á Akureyri, Þórður Stefánsson og Stefán Þórðarson smíðuðu festibolta.
Frá þessu er sagt á heimasíðu Samherja