Símana burt - talað af gólfinu

Hanna Dóra Markúsdóttir
Hanna Dóra Markúsdóttir

Ég vil ekki sjá einkasíma nemenda í grunnskólunum á skólatíma. Burt með þá. Ekki reyna að segja mér að ég sé bara tækniheft, miðaldra kennslukona sem nennir ekki að uppfæra þekkingu sína – ekki reyna það.

 Vissulega lifum við á 21. öldinni og símarnir eru komnir til að vera. Vissulega þarf að kenna nemendum að nýta sér tæknina á heilbrigðan hátt en....

Mér finnst einn punktur oft gleymast í þessari umræðu og það er friðhelgi einkalífsins. Ef ég er barn í grunnskóla á ég ekki að þurfa að búa við það alla daga að mögulega taki einhver skólafélagi minn mynd af mér og setji á samfélagsmiðla án míns leyfis. Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að ég sé ekki í nógu fínum fötum fyrir slíkar myndatökur og geri því kröfu heima um fokdýran tískufatnað. Ég á heldur ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að þurfa að fara á „klósettið“ í hverri kennslustund til að svara vinum mínum á samfélagsmiðlum innan ákveðins tíma því annars fari þeir í fýlu við mig. Áhyggjur mínar eiga heldur ekki að snúast um að þegar ég flyt verkefnin mín upphátt í skólanum sé einhver bekkjarfélagi mögulega að taka mig upp.

Setjum okkur í spor unglings sem er lítil brotthætt sál með sjálfstraustið í lágmarki. Þessar aðstæður eru martröð. Hvað geri ég? Sest út í horn, helst með hettuna yfir andlitinu og reyni að láta engan sjá mig eða jafnvel mæti ég alls ekki í skólann. Önnur birtingarmynd er unglingur sem er orðinn svo háður símanum sínum að hann getur alls ekki látið hann frá sér og áttar sig ekki á að síminn er orðinn framlenging af honum. Oft ætlar slíkur unglingur ekki að brjóta reglurnar en ræður ekki við aðstæðurnar og fær samviskubit yfir að geta ekki stjórnað þessu.

Leikmaður spyr væntanlega hvers vegna ekki séu bara settar reglur um að það megi ekki nota símann í kennslustundum. Sú regla er í gildi í flestum grunnskólum og ég giska á að um 80% nemenda virði þessa reglu. Tækin eru alltaf að verða fyrirferðarminni og nemendur eru eldklárir í að fela símana þannig að kennarar sjái ekki til þeirra. Þetta er endalaus eltingaleikur við snjalla unglinga og tíma allra er betur varið í eitthvað uppbyggjandi.

Annar punktur varðandi friðhelgi einkalífsins er sá að kennari má alls ekki taka síma af nemanda því samkvæmt lögum er það brot á friðhelgi einkalífsins. Nemandi þarf sjálfviljugur að afhenda kennara símann sinn og hafi nemandi eitthvað að fela afhendir hann ekki símann. Nemendur eru flestir meðvitaðir um réttindi sín enda kennum við um þau í skólanum. Það eru ekki alveg allir nemendur tilbúnir til að lesa kaflann um skyldur þær sem fylgja öllum réttindum. Það er eðlilegt. Það er meira að segja til fullorðið fólk sem ekki er tilbúið til að gangast undir skyldur sem fylgja réttindum.

En á þá bara ekkert að kenna börnum að nota þessa tækni sér til gagns? Jú vissulega. Skólakerfið þarf að reyna eftir bestu getu að halda í við tækniframfarirnar og beina nemendum inn á jákvæðar netbrautir. Sú kennsla þarf hins vegar að fara fram í tækjum sem skólinn á. Það gefur kennara fullt leyfi til að taka tækið og kanna hvað nemendur eru að sýsla og einnig er hægt að stilla þannig að kennari sjái skjái nemenda í sinni tölvu og geti fylgst með hvað fram fer. Þannig er líka hægt að loka fyrir samfélagsmiðla á skólatíma.

Það hefur sýnt sig að of stór hluti nemenda ræður ekki við símanotkun sína enda er tæknin hönnuð til að valda fíkn. Ef ekki er gripið inn í aðstæðurnar á óharðnað ungmenni engan séns. Á skólatíma geta fræðsluyfirvöld tekið í taumana, búið alla grunnskóla þannig að tækjakostur til kennslu sé ásættanlegur og bannað síma í grunnskólum. Kennarar yrðu þannig betur í stakk búnir til að styðja foreldra í að kenna ábyrga netnotkun. Foreldranna er þó í þessu eins og öðru alltaf ábyrgðin þegar upp er staðið.

Hanna Dóra Markúsdóttir

Höfundur er starfandi grunnskólakennari til 30 ára.

 

 

Nýjast