13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Segir stór verkefni bíða nýrrar bæjarstjórnar í vor
Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) sendi nýverið inn formlegt erindi sem tekið var fyrir í bæjarráði Akureyrar 11. nóvember sl. Í erindinu var í ósakað eftir aðkomu bæjarins að byggingu og rekstri þjónustumiðstöðvar fyrir eldra fólk í Holtahverfi norður.
Erindinu var hafnað og við það eru félagar í EBAK ósáttir, og kannski sérstaklega við það að hafa ekki verið látin vita símleiðis að ráðið gæti ekki orðið við erindinu, eins og lesa má í Opnu bréfi til bæjarráðs sem birtist á vef Vikublaðsins rétt í þessu. Það er Hallgrímur Gíslason formaður EBAK sem skrifar undir greinina fyrir hönd félagsins. En hann segir mjög brýnt að fá sem allra fyrst hentugt húsnæði fyrir aukin tómstundastörf eldri borgara, bæði á vegum EBAK og Akureyrarbæjar. Húsnæði sem er í grennd við heimili þeirra sem nýta þjónustuna.
Þá segir Hallgrímur frá því að Búfesti hafi látið teikna upp nyrsta hluta Holtahverfis austan Krossanesbrautar árið 2018. Þar hafi verið gert ráð fyrir allt að 150 leiguíbúðum. Þar af hafi þrjú fjölbýlishús sérstaklega verið ætluð aldurshópnum 60 ára og eldri, samtals 98 íbúðum í samstarfi við EBAK.
Hallgrímur bendir jafnframt á að stöðugt fjölgi í eldri aldurshóp bæjarins og kallar eftir algjörri samhæfingu í þjónustu fyrir eldra fólk. „Það má kosta miklu til að fresta sem lengst þörf einstaklinga á dvöl á hjúkrunarheimilum, enda er það langdýrasti kosturinn sem til er,“ skrifar hann og bætir við að bæjaryfirvöldum hafi gengið mjög illa að forgangsraða fjármunum í þágu aldraðra. Því bíði stór verkefni nýrri bæjarstjórn strax í vor.