„Sannkallað draumastarf að taka þátt í upphafsferlinu“

Freyr Ingólfsson, verkefnastjóri Íslandsþara. Mynd/epe
Freyr Ingólfsson, verkefnastjóri Íslandsþara. Mynd/epe

Freyr Ingólfsson er fæddur og uppalinn á Húsavík en flutti burt ungur að árum eins og svo margir til að mennta sig og leita atvinnutækifæra sem ekki voru í boði í heimabænum. Hann segir að það hafi alltaf blundað í sér að koma aftur, sérsaklega eftir að hann varð fjölskyldumaður. Atvinnutækifærin hafi hinsvegar verið af skornum skammti.

Árið 2014 bauðst honum starf hjá verkfræðistofunni Mannviti á Húsavík og þá hafi hann stokkið á tækifærið enda vel meðvitaður um þá uppbyggingu sem var að fara af stað á Bakka.

 Vilja hvergi annars staðar vera

Aðspurður um hvað felist í því að vera efnaverkfræðingur segir Freyr að það sé í rauninni samblanda af verkfræðing og efnafræðing sem vinnur með efni á stórskala. „Efnafræðingur er meira að vinna í tilraunaglösum og á rannsóknarstofu en ég er að taka það sem menn eru að finna upp í tilraunaglösunum og færa það upp á stærri skala,“ segir hann og viðurkennir að hann hafi ekki átt von á því þegar hann var í námi að hann gæti í framtíðinni flutt aftur til Húsavíkur og fundið starf sem hæfði hans menntun eins og raunin varð.

„Við fjölskyldan erum mjög ánægð hér á Húsavík. Þetta er fjölskylduvænt samfélag,“ segir Freyr en hann á konu og þrjá unga stráka og öflugt stuðningsnet. „Við viljum vera úti á landi og allra helst á Húsavík. Ég gæti í sjálfu sér unnið hvar sem er í heiminum en á Íslandi er það þá helst í Reykjavík, þar eru vissulega flest atvinnutækifæri en þegar maður kemst yfir eitthvað svona þá hoppar maður á það, við viljum hvergi annars staðar vera.“

 Sannkallað draumastarf

Freyr hefur nú verið ráðinn verkefnastjóri hjá Íslandaþara, sem hyggur á uppbygginu á stórþaravinnslu á Húsavík og Akureyri. Blaðamaður hitti á hann í vikunni í miðjum undirbúningi fyrir íbúafund sem fyrirtækið stendur fyrir á Fosshótel 17. nóvember nk. Þá hyggst fyrirtækið kynna verkefnið betur og svara þeim spurningum sem kunna að brenna á íbúum.

„Ég er að taka þátt í að koma þessu á koppinn og kem að hönnuninni. Þetta er sannkallað draumastarf að fá það taka þátt í upphafsferlinu og hafa tækifæri til að hafa áhrif á það. Svo á endanum að taka þátt í starfseminni í verksmiðjunni,“ segir Freyr

„Við sóttum um þessa lóð á Norðurhafnarsvæði H2 og það er verið að fara í deiluskipulagsbreytingar á þessari lóð. Við erum að fara kynna það sem við erum að fara reisa og svara þeim spurningum sem íbúar kunna að hafa,“ segir Freyr spurður út í fundinn.

 Segir áhyggjur skiljanlegar

ÞAraverksmiðja

Ef marka má umræðu í samfélaginu um verkefni Íslandsþara má bæði merkja jákvæðni og eftirvæntingu eftir uppbyggingunni sem því fylgir. En einnig hafa heyrst áhyggjuraddir um ýmsa þætti, s.s. lyktar og hávaðamengun, einhverjum þykir staðsetningin áhyggjuefni og muni þrengja að annarri starfsemi í framtíðinni. Þá velta aðrir fyrir sér áhrifum þaratökunnar á lífríkið í og við Skjálfandaflóa. Freyr segir að áhyggjuraddirnar séu skiljanlegar og reynt verði að svara öllum þeim spurningum sem íbúar kunni að hafa á fundinum.

„Ekki síður að kynna betur hugmyndir okkar. Upplýsa íbúa enn frekar um verkefnið og hvaða þýðingu það hefur fyrir samfélagið, Við munum sýna hvernig verksmiðjan kemur til með að líta út og hvernig það fellur inn í umhverfið. Við erum með arkítekt í að hanna útlitið á húsinu og munum sýna hönnunarmyndir af húsinu á fundinum,“ segir Freyr og bætir við að farið verði yfir það hvers vegna Norðurhafnarsvæðið hafi orðið fyrir valinu. „Af öllum kostum sem skoðaðir hafa verið var þetta einfaldlega besta staðsetningin og við munum útskýra það fyrir íbúum.“

Freyr segir að um sé að ræða svo kallaðan léttan iðnað og því verði hljóðmengun minni en í hefðbundinni fiskvinnslu.

Algengasta spurningin sem Freyr heyrir snýr að lyktarmengun „Það er ekkert í vinnsluferlinu sem kallar á það að það verði einhver lyktarmengun,“ segir Freyr og leggur áherslu á að eðli vinnslunnar kalli á það að hráefnið sé unnið ferskt. Í því sambandi hafi staðsetningin á hafnarsvæðinu líka verið valin. „Það skiptir höfuðmáli að koma hráefninu sem fyrst inn í verksmiðuna, þá er auðvitað mikilvægt að vinnslan sé sem næst hafnarsvæðinu þar sem það kemur að landi.“

 Fjölbreytt störf á báðum stöðum

Þá segir Freyr að það verði svipuð blanda ef störfum sem muni skapast á Húsavík og Akureyri með tilliti til menntunar. „Upphafið í vinnsluferlinu fer fram á Húsavík en að auki verður til verðmætur vökvi sem hægt er að vinna úr svokölluð lífvirk efni. Það verða til  mjög spennandi og áhugaverð störf í kringum það. Við verðum með verkfræðinga, hefðbundin skrifstofustörf, framleiðslustörf og allt mögulegt. Það skiptir miklu máli að ferlið takist vel upp á Húsavík til þess að dæmið gangi upp á Akureyri, það er lykilatriði,“ segir hann og bætir við að það hafi verið raunhæfara að skipta verkefninu á milli staðanna tveggja.

„Það er gott að hafa í huga að þegar við erum að byggja upp 100 manna vinnustað í heildina eins og áætlanir gera ráð fyrir. Þá erum við að tala um 40-50 störf á Húsavík og annað eins á Akureyri. Ég tel að það sé mun þægilegri stærð til að ráða við fyrir þetta bæjarfélag heldur en ef við værum að reyna fylla í 100 störf í einu vetfangi,“ útskýrir Freyr.

Einhverjar áhyggjur hafa birst varðandi sjálfa þaratökuna, hvaða áhrif hún hún hafa á lífríki í og við Skjálfanda?

„Þarinn vex meðfram strandlengjunni og er á um það bil 15-30 metra dýpi. Til að svara spurningunni hvað varðar lífríkið í Skjálfandaflóa, þá verður engin þarataka innan flóans sjálfs heldur við strandlengjuna við Norðurland. Þetta er unnið í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnun, við njótum liðisinnis þeirra við að rannsakna þetta. Það er talað um að taka um 2% af massanum sem er hér við ströndina á öllu Norðurlandi, það er nú ekki meira en það,“ segir hann og bætir við að þaranum verði öllum landað á Húsavík. Í plöntunni sér um 80% vatn og það gangi einfaldlega ekki upp að keyra hráefninu á milli landshluta..

Vinnsluferlið

Þegar kemur að vinna þarann verður notuð efnameðhöndlun í ferlinu þar sem algínöt og Sellulósi er einagnraður út plöntunni. „Til þess þurfum við kemísk efni og heita vatnið, þess vegna einmitt erum við að velja Húsavík.  Við notum daufar sýrur og basa til að einangra þessi efni og aðskilja úr plöntunni og á sama tíma erum við að skilja frá vatn með þessum aðferðum. Að lokum eru vatn pressað úr trefjunum og eftir verður hvítt trefjaduft. Svo er afurðinni keyrt á Akureyri annað hvort fullþurrkað eða rakt,“ útskýrir Freyr.

Væri ekki eðlilegt að lífhreinsistöðin yrði reist á Bakka í tengslum við græna iðngarða?

„Það er vegna þess að þetta er lyfja og matvælaframleiðsla. Þá er varan svo viðkvæm fyrir því að taka í sig lykt, þess vegna er það ókostur að staðsetja verksmiðjuna á Bakka og sama gildir um suðurfjöruna vegna mögulegrar lyktarmengunar frá öðrum iðnaði í næsta nágrenni. Að auki er uppfyllingin á suðurfjörinni í hættu að verða fyrir flóðum í vondum veðrum sem getur skapað vandræði í matvæla og lyfjaframleiðslu,“ segir Freyr og bætir við að upphaflega hafi verið skoðað að reisa verksmiðjuna í Víðimóum en það hafi ekki reynst hentugt að keyra hráefninu þangað upp eftir.

„Við viljum nýta fundinn 17. nóvember vel til þess að svara þeim spurningum sem brenna á íbúum og ég vona að sem flestir sjái sér fært um að mæta,“ segir Freyr að lokum.

Nýjast