Samþykktu heimgreiðslur til að mæta mönnunarvanda á Grænuvöllum

Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík. Mynd/epe
Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík. Mynd/epe

Fjölskylduráð Norðurþings hefur til umfjöllunar starfsemi leikskólans Grænuvalla á Húsavík en leikskólinn stendur frammi fyrir alvarlegum mönnunarvanda. Nú liggur fyrir að ekki er nægt starfsfólk til að taka við nýjum nemendum í lok ágúst. Gripið verði til tímabundinna heimgreiðslna til að mæta vandanum.

Aðeins ein umsókn borist

„Auglýst hefur verið í tvígang, í seinna skiptið með þeim fríðindum sem nú bjóðast starfsfólki leikskóla. Umsóknarfrestur rennur út 8. júlí. Ein umsókn hefur borist en það vantar sjö starfsmenn miðað við umsóknir um vistun í lok ágúst. Ef þau börn yrðu tekin inn yrði heildarfjöldi barna 152 strax í upphafi skólaárs. Fyrirséð er að miðað við núverandi upplýsingar að heildarfjöldi nemenda í nóvember yrði 160 og 165 í janúar 2024. Gera má ráð fyrir að ef aðlaganir stæðust og yrðu sambærilegar við fyrri ár yrðu 175 börn á Grænuvöllum vorið 2024,“ segir í bókun fjölskylduráðs í dag.

Þar segir jafnframt að fjölskylduráð muni á næsta fundi skipa í starfshóp með það að markmiði að gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari og leita leiða til að draga úr starfsmannaveltu.

Á fundinum í dag lagði fræðslufulltrúi Norðurþings jafnframt fram drög að reglum um heimgreiðslur til að mæta þessum vanda.

Vildi hærri heimgreiðslur

Heiðar Hrafn Halldórsson B-lista lagði fram breytingatillögu á drögum fræðslufulltrúa þar sem hann vildi hækka heimgreiðslur til forráðamanna barna 12-24 mánaða sem eru að bíða eftir leikskólaplássi. Að greiðslurnar verði ákvarðaðar 200 þúsund krónur á mánuði.
Reglurnar verði endurskoðaðar að ári liðnu sé enn talin þörf á úrræði þessu.

„Reglur þessar eru einskonar neyðarúrræði vegna yfirvofandi manneklu á leikskólanum Grænuvöllum og fáum aðlögunum á árinu 2024 þar af lútandi. Upphæð heimgreiðslna sem liggur til samþykktar á fundinum er aðeins lítill hluti þeirrar upphæðar sem leikskólapláss yngstu barna kosta Norðurþing á mánuði. Þar af leiðandi telur undirritaður að óhætt sé að hækka til lagða heimgreiðsluupphæð upp í 200 þúsund á mánuði enda enn nokkuð frá metnum kostnaði við leikskólapláss yngsta aldurshópsins,“ segir m.a. í greinargerð með tillögu Heiðars Hrafns en tillögunni var hafnað með fjórum atkvæðum.

Heiðar Hrafn segir í samtali við Vikublaðið að sveitarfélög víðsvegar á landinu hafi gripið til heimgreiðslna og ástæðurnar séu mismunandi eftir sveitarfélögum. Hér sé nauðsynlegt að beita þessu úrræði vegna þess mönnunarvanda sem upp er kominn á leikskólanum Grænuvöllum.

Halli á konur á vinnumarkaði

Rebekka Ásgeirsdóttir fyrir hönd S -lista og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrir hönd V-lista bókuðu eftirfarandi á fundinum:  „Undirritaðar hafa áhyggjur af því að það halli á konur á vinnumarkaði ef heimgreiðslur fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða dragist á langinn og telja því brýnt að bráður vandi leiksskólans verði leystur sem fyrst.“

Heimgreiðslur verði 150 þúsund krónur

Niðurstaða fundarins var sú að meirihluti fjölskylduráðs samþykkti heimgreiðslur að upphæð 150.000,- frá 1. september 2023 til 1. júlí 2024. Heiðar Hrafn sat hjá við afgreiðslu tillögunnar en hann furðar sig á að greiðslurnar megi ekki vera hærri. „Ég klóra mér í höfðinu yfir því að heimgreiðslur megi ekki vera nær þeim raunkostnaði sem leikskólapláss yngstu nemenda er,“ sagði hann.

Reglunum um heimgreiðslur var vísað til staðfestingar í byggðarráði.

Nýjast