20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Samningur um uppbyggingu Vaðlaskógar
Skrifað hefur verið undir styrktar- og samstarfssamning milli Svalbarðsstrandarhrepps og Skógræktarfélags Eyfirðinga en hann mun stuðla að uppbyggingu á innviðum Vaðlaskógar og að bættri lýðsheilsu samfélagsins.Samningurinn er Skógræktarfélaginu dýrmætur og mikil tilhlökkun að starfa með „Ströndungum“ til framtíðar.
Vaðlaskógur er mögnuð náttúruperla sem stofnað var til fyrir tæpum 90 árum síðan með draum um betra Ísland að leiðarljósi. Meðal annars var hugsunum með því að hefja gróðursetningu í Vaðlaskógi að skemmra væri fyrir bæjarbúa á Akureyri að fara í skógarferð, Vaðlaskógur yrði innan seilingar en lengra var að sækja Vaglaskóg heim. Hugmyndin með því að græða upp nýjan skóg var að flytja Vaglaskóg inn yfir heiðina.
Árið 1936 gerði SE samning við eigendur og ábúendur jarðanna Syðri-Varðgjár, Ytri-Varðgjár, Veigastaða og Hallanda, um umráða- og afnotarétt á landspildu í brekkunum með fram sjónum, gegnt Akureyri. Land var svo girt árið eftir og er sú girðing rúmir 3 km. að lengd. Sama ár var byrjað að gróðursetja í þessu landi, víði, björk, greni og furu og síðan hafa verið gróðursettar þar árlega nokkur þúsund plöntur.