27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Saga Menntaskólans á Akureyri í hnotskurn
Menntaskólinn á Akureyri rekur sögu sína til stólskólans á Hólum í Hjaltadal sem stofnaður var í upphafi biskupstíðar Jóns helga Ögmundarsonar árið 1106. Hólaskóli var dómstóli eða katedralskóli eins og þeir sem stofnaðir voru við flestar höfuðkirkjur í Evrópu á síðmiðöldum. Hólaskóli hinn forni er næstelsti dómskóli á Norðurlöndum á eftir dómskólanum í Lundi, sem stofnaður var 1085, en í Lundi hlaut Jón Ögmundarson, fyrsti biksup á Hólum og stofnandi skólans, vígslu en fyrsti skólameistari á Hólum var Gísli Finnsson af Gautalandi.
Meginhlutverk hins forna Hólaskóla var að mennta starfsmenn kaþólsku kirkjunnar. Eftir siðaskipti varð skólinn öðrum þræði prestaskóli, sem undirbjó nemendur undir prestsþjónustu eins og áður, en gegndi jafnframt hlutverki stúdentaskóla sem bjó pilta undir nám við erlenda háskóla, einkum Kaupmannahafnarháskóla, sem stofnaður hafði verið árið 1479.
Með bréfi Danakonungs 2. október 1801 voru biskupsdómur og latínuskóli að Hólum í Hjaltadal niður lagðir. Brautskráðust síðustu stúdentar frá skólanum vorið 1802. Var þetta afleiðing nýskipunar í stjórn landsins, en einnig ollu þessu fjárhagsvandi og bjargarleysi Íslendinga.
Árið 1880 var skóli stofnaður á Möðruvöllum í Hörgárdal og var fyrsti skóli gagnlegra fræða á Íslandi. Var honum í upphafi einkum ætlað að kenna bændum hagnýt fræði. Hins vegar varð Gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum fljótt gagnfræðaskóli, Realschule, realskole, eins og þá höfðu verið við lýði víða í Evrópu, þar á meðal í Þýskalandi og Danmörku.
Við stofnun Möðruvallaskóla hófst barátta fyrir stofnun stúdentaskóla á Norðurlandi. Hélst hún áfram eftir að skólinn fluttist til Akureyrar eftir að skólahúsið að Möðruvöllum brann til grunna 22. mars 1902. Lengi miðaði lítið í baráttunni fyrir endurreisn norðlenska skólans, og höfðu menn þá í huga hinn gamla Hólaskóla. Upp úr 1920 fór baráttan að bera árangur. Árið 1923 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um menntaskóla á Akureyri. En því var vísað frá með rökstuddri dagskrá. Haustið 1924 var hins vegar farið að kenna námsefni til stúdentsprófs við Gagnfræðaskólann á Akureyri, eins og skólinn hafði verið kallaður frá 1904. Fyrstu nemendur sem hlutu alla undirbúningsmenntun sína við skólann á Akureyri luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1927.
Hinn 29. október 1927 veitti kennslumálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, Gagnfræðaskólanum á Akureyri heimild til að „halda uppi lærdómsdeild eftir sömu reglum og gilda um lærdómsdeild Menntaskólans [í Reykjavík] [...] og hafa rétt til að útskrifa stúdenta [...] eftir ákvæðum gildandi prófreglugerðar máladeildar Menntaskólans [í Reykjavík], enda veiti [prófið] allan sama rétt”. Með lögum frá Alþingi 5. apríl 1930 var ákveðið að á Akureyri skyldi „vera skóli, með fjórum óskiptum bekkjum, er nefnist Menntaskólinn á Akureyri.“ Skyldu íslensk tunga og náttúruvísindi vera höfuðnámsgreinar í skólanum.
Menntaskólinn á Akureyri var framan af fámennur skóli með fjölmenna gagnfræðadeild sem rekin var til ársins 1949. Veturinn 1930 til 1931 voru nemendur í skólanum 181, þar af 69 í gagnfræðadeild. Frá 1950 var við skólann rekin svonefnd miðskóladeild með landsprófsdeild sem lögð var niður árið 1964. Eftir það hefur skólinn verið almennur menntaskóli og hafa nemendur undanfarin áratug verið um 700 og hafa verið brautskráðir nær tíu þúsund stúdentar af átta námsbrautum: málabraut, stærðfræðibraut, náttúrufræðibraut, eðlisfræðibraut, tónlistarbraut, myndlistarbraut og verslunarbraut.
Upphaflega var aðeins ein námsbraut við skólann, málabraut, sem í upphafi var kölluð máladeild. Árið 1934 var stofnuð stærðfræðideild við skólann og árið 1966 var henni skipt í eðlisfræðibraut og náttúrufræðibraut. Haustið1972 tók til starfa félagsfræðibraut við skólann og 1975 voru stofnaðar tónlistarbraut, sem rekin var í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri, og myndlistarbraut, sem rekin var í samvinnu við Myndlistarskólann á Akureyri. Árin 1980 til 1984 var við skólann starfrækt verslunarbraut í samvinnu við Gagnfræðaskólann á Akureyri og 1975 var stofnað til fullorðinsfræðslu í svonefndri öldungadeild, sem rekin var til ársins1993.
Á Akureyri var lengi litið á skólann sem ríki í ríkinu, bæði af Akureyringum svo og af hálfu stjórnenda skólans og starfsmanna. Skólinn varð undanfari bæði Verkmenntaskólans á Akureyri og Háskólans á Akureyri og áttu starfsmenn skólans þátt í stofnum og mótun beggja skólastofnananna.
Menntaskólinn á Akureyri hefur alla tíð verið ríkisskóli. Af þeim sökum hefur lítið þurft að leita til bæjarfélagsins. Skólinn varð snemma sjálfstæður af því að gatan var oft ærið löng til ráðuneytisins í Reykjavík. Án Menntaskólans á Akureyri hefði Akureyrarbær ekki orðið það sem hann er og ljóst er að háskóli hefði ekki risið á Akureyri ef Menntaskólinn hefði ekki verið þar fyrir. Þá hafa tekjur bæjarfélagsins af skólanum numið háum fjárhæðum enda hafa bæjarbúar gert sér ljóst mikilvægi skólans fyrir bæjarfélagið.
Þessi staða skólans sem ríki í ríkinu hefur haft sína kosti og sína galla. Vegna þessarar stöðu hefur skólinn farið aðrar leiðir en ef hann hefði verið menntaskóli Akureyrar. M.a. hefur lengst af verið reynt að höfða til nemenda alls staðar á landinu og var skólinn kynntu sem landsmenntaskóli. Var það skólanum styrkur að hafa nemendur úr öllum sýslum og öllum sveitarfélögum landsins.