Rósa Emelía hlýtur Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri í Þingeyjarsveit með Menningarverðlaunahafanum Rósu Eme…
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri í Þingeyjarsveit með Menningarverðlaunahafanum Rósu Emelíu Sigurjónsdóttur. Mynd á vefsíðu Þingeyjarsveitar.

Rósa Emelía Sigurjónsdóttir Menningarverðlaun  Þingeyjarsveitar fyrir árið 2023. Verðlaunin eru nú veitt í fyrsta sinn. Slík viðurkenning hafði um nokkra ára skeið verið veitt í Skútustaðahreppi. Afhending fór fram á hátíðarsamkomu í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga sem haldinn var í Skjólbrekku. Kvenfélag Mývatnssveitar stóð fyrir samkomunni með aðkomu Ungmennafélagsins Eflingar.

Við val á verðlaunahafa er m.a. horft til framlags viðkomandi til menningarstarfs í Þingeyjarsveit. Auk viðurkenningar hlýtur verðlaunahafi peningaverðlaun frá sveitarfélaginu samkvæmt fjárhagsáætlun hvers árs.

Opnaði glugga inn í löngu liðinn heim 

 Rósa hefur undanfarin áratug haldið úti Facebook-síðu þar sem hún birtir 100 ára gamlar dagbókarfærslur frænku sinnar, Guðnýjar Helgu Sigurjónsdóttur saumakonu frá Miðhvammi í Aðaldal. Dagbókarfærslurnar eru ómetanleg heimild um daglegt líf einstæðrar verkakonu í Suður-Þingeyjarsýslu á fyrri hluta síðustu aldar. Helga eins og hún var alltaf kölluð hélt dagbækur frá árinu 1916-1938. Hún hafði lífsviðurværi sitt af saumaskap og sinnti þess á milli almennri verkamannavinnu. Með þeirri ákvörðun að opna, í gegnum Facebook, aðgengi að dagbókum Helgu frænku sinnar hefur Rósa Emelía opnað glugga inn í löngu liðinn heim sem veitir einstaka sýn á veröld sem var.

Auk Rósu Emelíu hlutu eftirtaldir aðilar tilnefningu til Menningarverðlauna Þingeyjarsveitar.

Karlakórinn Hreimur var tilnefndur fyrir að hafa verið hornsteinn í menningarlífi sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum síðan árið 1975. Kórinn vann meðal annars til silfurverðlauna á kóramóti í Póllandi nú á vordögum.

Ragnar Þorsteinsson bóndi í Sýrnesi. Ragnar var einn af stofnendum leikfélagsins Búkollu, en hann ritstýrði einnig Búkollubókunum svokölluðu (Byggðir og bú Suður – Þingeyinga). Ragnar hefur undanfarin ár gefið út lambadagatöl sem notið hafa mikilla vinsælda.

Freydís Anna Arngrímsdóttir (Systa) hefur verið formaður leikdeildar Umf. Eflingar í mörg ár og staðið fyrir reglulegum leiksýningum í Breiðumýri. Ásamt því að gegna formannsembættinu er Systa einnig öflugur leikari og hefur leikið í flestum ef ekki öllum sýningum frá því leikdeildin var endurvakin kringum 1990.

Hermann Róbert Herbertsson hlaut tilnefningu fyrir að hafa lyft Grettistaki í varðveislu örnefna í sveitarfélaginu sérstaklega í suðurdölum Fnjóskadals og víðar s.s. í Ljósavatnsskarði. Söfnunina hefur hann unnið í samstarfi við Emil Björnsson. Fram kemur að afrek hans stuðli að því að örnefnin séu staðsett og skráð inn á Örnefnavef Landmælinga Íslands.

Ásdís Erla Jóhannesdóttir og Yngvi Ragnar Kristjánsson ( Ásdís og Raggi í Selinu ) fá tilnefningu fyrir sitt góða starf í þágu sveitarinnar, eða eins og segir í tilnefningunni: „ Þau eru að gera ótal marga flotta hluti sem geta vel flokkast undir menningarviðburði. Með bruggi sínu auka þau við bjórmenningu, þau bjóða eldri borgurum í partí, hafa prjónakvöld, gönguskíðaviðburði/gönguskíðaspor, jóga, taka þátt í vetrarhátíðinni með foreldrafélaginu, standa fyrir fjölskyldu jólahlaðborði og taco dinner svo lítið eitt sé nefnt.“

Þetta kemur fram á vefsíðu Þingeyjarsveitar

 

Nýjast