Rokk og uppistand á Græna hattinum
Allt í gangi nefnist splunkunýtt uppistand úr smiðju Jakobs Birgissonar og Jóhanns Alfreðs sem skemmta á Græna hattinum annað kvöld, fimmtudaginn 23. janúar. Þeir Jakob og Jóhann taka fyrir almennt dægurþras í bland við persónulegri málefni. Jakob Birgisson kom sem stormsveipur fram á sjónarsviðið sl. haust með frumraun sinni, Meistari Jakob, sem um tvö þúsund gestir sóttu. Síðan þá hefur Jakob haft gamanmál að atvinnu og skemmt fólki um land allt. Jakob var t.a.m. einn af handritshöfundum Áramótaskaupsins 2019. Jóhann Alfreð hefur skemmt stórum hluta þjóðarinnar í yfir tíu ár með uppistandshópnum Mið-Íslandi en sýningar hópsins eru orðnar hátt í fimmta hundruð talsins. Sjón er sögu ríkari og hefst sýningin kl. 21.00 í kvöld.
Á föstudagskvöldið 24. janúar munu Hipsumhaps leggja leið sína á Græna hattinn og halda tónleika. Þetta verða þeirra fyrstu tónleikar á norðurslóðum. Hipsumhaps skipa þeir Fannar Ingi og Jökull Breki og með þeim á tónleikunum verða Magnús Jóhann á hljómborð, Bergur Einar á trommur og Ólafur Alexander á gítar og bassa. Sveitin steig fyrst fram á sjónarsviðið sl. sumar með lagið LSMLÍ (lífið sem mig langar í). Í framhaldi af því komu út tvö önnur lög áður en að platan Best gleymdu leyndarmálin leit dagsins ljós þann 22. september og hlaut góðar viðtökur. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Á laugardagskvöldinu 25. janúar er komið að rokksveitinni HAM ásamt Skúla Sverrissyni: Chromo Sapiens. HAM hefur haft hægt um sig undanfarið en kraftar sveitarinnar hafa beinst að samstarfi við Skúla Sverrisson og listakonuna Hrafnhildi Arnardóttur, aka Shoplifter. Útkoman er verkið Chromo Sapiens sem er hljóðmynd HAM og Skúla við samnefnda sýningu listakonunnar. Sýningin hefur unnið hug og hjörtu listaheimsins á Feneyjartvíæringnum í ár og verið tilnefnd til alls kyns vegtylla. Sýningin verður opnuð á Íslandi 23. janúar. HAM efna til stórtónleika í Reykjavík þann 24. janúar og endurtaka leikinn á Græna hattinum laugardagskvöldið 25. janúar sem fyrr segir. Þar mun HAM flytja tónlistina úr Chromo Sapiens ásamt Skúla Sverrissyni, auk þess að spila sínu helstu slagara. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.