Risastór ráðstefnuhelgi í Háskólanum á Akureyri
Námstefna í Byrjendalæsi verður haldin 9. september næstkomandi í tengslum við ráðstefnuna Læsi fyrir lífið, skilningur, tjáning og hlustun sem haldin verður 10. september. Báðir viðburðir verða í Háskólanum á Akureyri.
Námstefna í Byrjendalæsi er viðburður fyrir alla áhugasama um læsi og læsiskennslu á yngsta stigi grunnskólans. Námstefnan er haldin annað hvert ár og hana sækja kennarar sem kenna eftir aðferðum Byrjendalæsis auk annars áhugafólks um læsi og læsiskennslu.
Aðalfyrirlesarar á námstefnunni eru þau Ross Young, starfsþróunarráðgjafi, rannsakandi og námsgagnahöfundur og Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir, sérkennari í Síðuskóla. Ross mun fjalla um ritun og áhugahvöt í sínu erindi en Sigrún Helga um börn með fjölbreyttan tungumálabakgrunn og hvernig Byrjendalæsi styður við nám ÍSAT nemenda.
Auk aðalerinda verður boðið upp á málstofuerindi og vinnustofur þar sem viðfangsefnin eru fjölbreytt og lögð áhersla á hagnýta tengingu og hugmyndir sem kennarar geta nýtt sér inn í veturinn.
Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, lokar námstefnunni en hann mun deila með námstefnugestum vangaveltum sínum um lestur og læsi.
Í kjölfarið, laugardaginn 10. september, verður ráðstefnan Læsi fyrir lífið, skilningur, tjáning og miðlun verður haldin í Háskólanum á Akureyri einnig á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Menntamálastofnunar. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og hefur hún verið vinsæll vettvangur fyrir áhugafólk um læsi. Á ráðstefnunni verður sjónum beint að læsi og læsiskennslu og fjallað um málefnið frá út frá margvíslegum sjónarhornum. Efni ráðstefnunnar sniðið að læsi í leik-, grunn-, og framhaldsskóla.
Á ráðstefnunni verða þrjú aðalerindi:
- Kristín Ragna Gunnarsdóttir, mynd- og rithöfundur, hugmyndasmiður, kennari og ritstjóri Risastórra smásagna 2021-2022
- Ross Young, starfsþróunarráðgjafi, rannsakandi og námsgagnahöfundur
- Vilhjálmur Bragason, leikari, leikskáld og tónlistarmaður.
Aðalerindin fjalla um mikilvægi þess að virkja sköpunarkraft og áhugahvöt nemenda og gefa þeim verkfæri til að tjá sig og miðla hugsunum sínum og skoðunum á árangursríkan hátt.
Auk aðalfyrirlestra verður boðið upp á málstofuerindi og vinnustofur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að læsi og horft sérstaklega til þess að viðfangsefnin hafi hagnýtt gildi fyrir þátttakendur.