Reyna að leysa húsnæðisvandann á Húsavík

Húsavík. Mynd: Heiðar Kristjánsson
Húsavík. Mynd: Heiðar Kristjánsson

Húsnæðismál hafa verið til umræðu í sveitarstjórn Norðurþings undanfarna mánuði. Mikill skortur er á húsnæði, sér í lagi á Húsavík og þar er vandinn  margvíslegur. Erfitt er að fá leigt íbúðarhúsnæði í bænum, bæði vegna þess að fáar eignir eru lausar og svo vegna þess að íbúðir eru í sífellt auknum mæli leigðar út til ferðamanna yfir sumartímann. Mörg dæmi eru um það að fjölskyldur fái aðeins leigt yfir vetrartímann og þurfi að finna sér annað húsnæði þegar ferðamannatíminn gengur í garð á vorin.

Mjög lítið hefur verið byggt í bænum undanfarin ár. Hár byggingakostnaður gerir verktökum erfitt fyrir. Venjulegt fólk hefur ekki efni á að kaupa nýtt húsnæði á þeim verðum sem eru nauðsynleg til að standa undir byggingakostnaði. „Unnið hefur verið að því að greina húsnæðismálin undanfarið hjá sveitarfélaginu. M.a. höfum við tekið saman ýmsa tölfræði um markaðinn hér, þar sem bersýnilega kemur fram þessi óhagstæði munur á meðalsöluverði eigna og byggingarkostnaði. Það er vandamál víðast hvar í landsbyggðunum utan höfuðborgarsvæðisins og á Akureyri. Framhaldið þyrfti að vinna á öllum fletum málsins til að ná fram arðsemi út úr því að hefja hér íbúðabyggingar þannig ná megi fram eðlilegri áhættu fyrir þann sem vill byggja,“ segir Kristján Þór Magnússon sveitastjóri Norðurþings í samtali við dagskrána.is

Unnið að húsnæðisáætlun

Verið er að vinna að drögum um húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið, og þá Húsavík sérstaklega enda á þörfin eftir bæði leiguhúsnæði og eignum til kaups bara eftir að aukast eftir því sem framkvæmdum vegna iðnaðaruppbyggingar á Bakka miðar áfram. Stefnt er á opnun kísilmálmverksmiðju PCC í lok árs 2017. Það er því gert ráð fyrir að talsverður fjöldi fólks muni flytja til Húsavíkur á næstunni.

 „Við erum að vinna þetta eins ítarlega og kostur er með greiningum ýmiskonar þ.e. lýðfræðilegar upplýsingar um íbúasamsetningu, aldurssamsetningu íbúa eftir búsetu gerðum ofl. Hópur sem skipaður var til vinnunar af byggðarráði vinnur þetta milli vikulegra funda ráðsins. Það liggja fyrir ýmiskonar greiningar á stöðunni sem við höfum ekki lagt í áður enda staðan sérstök á Húsavík í dag. Að þessari vinnu koma líka ráðgjafar okkar hjá ALTA, en þeir sáu um gerð Aðalskipulags Norðurþings. Við erum í sameiningu að reyna ná utan um þörfina á húsnæði. T.d. erum við að velta því upp hvar heppilegast sé að byggja fyrst og ekki síður, hvað væri heppilegt að byggja fyrst eða hvort sveitarfélagið ætti að hreyfa sig eitthvað í þessum efnum sjálft, í ljósi þeirra frumvarpa um húsnæðismál sem nú liggja fyrir þinginu,“ segir Kristján Þór. Kristján Þór

Kristján Þór greinir frá því að sveitarfélagið sé í viðræðum við áhugasama einkaaðila um að byggja íbúðarhúsnæði á Húsavík. „Við vonumst til að geta lagt fram greinargerð um húsnæðismálin í apríl. Bæði sem umræðuplagg inn í pólitíkina og til að aðstoða þá einkaaðila sem eru áhugasamir að koma til Húsavíkur og byggja upp íbúðarhúsnæði,“ segir hann.

Eitt af því sem einkennir húsnæðisvandann á Húsavík er hátt hlutfall eldri aldurshópa sem sitja með stórar eignir og vilja minnka við sig en geta það ekki. Í bænum eru margar eignir og nokkuð stórar þar sem búa einn til tveir einstaklingar 60 ára eða eldri. „Þetta eru áhugaverðar tölur um það hvar þörfin gæti legið hvað varðar nýjar íbúðir. Það er líklegt að það sé markaður fyrir smærri eignir fyrir þennan aldurshóp ef þær mætti byggja á viðráðanlegu verði og losa þannig um aðrar eignir.“, segir Kristján Þór.

Framsýn vill koma að borðinu

Stéttarfélagið Framsýn hefur lýst yfir áhuga á að koma að þessum málum með einum eða öðrum hætti. „Við sjáum náttúrulega þennan vanda sem steðjar að. Það er ekkert byggt. Það verður að gera eitthvað,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar. „Fólk vill flytja í bæinn en fær ekkert húsnæði, fólk er jafnvel að flytja úr bænum af því að það er að missa leiguhúsnæði og fær ekki annað. Við höfum lýst yfir áhuga á að skoða þessi mál með hlutaðeigandi aðilum eins og bænum og öðrum,“ segir hann og bætir við: „Þetta byggir á því að það sé tekið upp kerfi fyrir félagslegar íbúðir þannig að venjulegt fólk geti eignast húsnæði. Það er verið að bíða eftir því að ríkisstjórnin og Alþingi klári þessi mál,“ og vísar þarna til húsnæðisfrumvarpa Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra. „Ég hef bara áhyggjur af þessu, að það séu ekki farnar af stað byggingar og þessi frumvörp þyrftu að vera afgreidd strax í dag. Það höktir og við megum ekki við því að bíða lengur,“ segir Aðalsteinn.

„Þörfin er mjög aðkallandi“

Þörfin er mikil. Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings bendir á að gert sé ráð fyrir að á næstu fjórum árum þurfi a.m.k. 100 nýjar íbúðir, en að brýnasta þörfin hljóði upp á 40-50 íbúðir. „Það er fyrsta bylgjan sem við erum að reyna að ná utan um. Til að taka á móti þeim sem koma fyrst,“ segir hann og bætir við: „Við erum að gera hvað við getum sem sveitarfélag til að ýta á að boltinn fari að rúlla, því þörfin er mjög aðkallandi“.

Dagskráin.is mun fjalla nánar um húsnæðismál á Húsavík á komandi dögum og vikum. EPE

Nýjast