13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Reykjaheiðarvegur vígður með formlegum hætti
Nýr og glæsilegur Reykjaheiðarvegur vígður með formlegum hætti
- Minnstu mátti muna að hann hafnaði á heimsminjaskrá UNESCO
„Fljótt á litið mætti halda að myndin væri frá stríðshrjáðu svæði í óminnis fjarlægð hvar brynvarðir skriðdrekar ættu síendurtekið erindi þar um.
En, nei þessi mynd er sannarlega ekki frá neinu fjarlægu átakasvæði.
Hún er nú bara dæmigerð mynd af götunni okkar, Reykjaheiðarveginum að morgni 10. nóvember anno domingo 2018.“
Svona hefst erindi frá íbúum við Reykjaheiðarveg á Húsavík til skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings árið 2018. Tilefnið var langþráð ósk íbúanna að fá bundið slitlag á Reykjaheiðarveg.
Nú hefur þessi langþráði draumur Torgara orðið að veruleika og götumyndin er öll til fyrirmyndar.
Torgarar eru þekktir fyrir að kunna þá list betur en aðrir að blása til fagnaðar. Á fimmtudag sl. var hinn nýji Reykjaheiðarvegur formlega opnaður. Helena Eydís Ingólfsdóttir var fulltrúi sveitarfélagsins á Opnunarhátíðinni og sagði nokkur orð við tilefnið. Þorkell Björnsson steig einnig á stokk sem fulltrúi elstu kynslóðar Torgara og flutti óborganlega ræðu eins og honum einum er lagið.
„Þetta var vígsla Reykjaheiðarvegar. Svo var bara partý á eftir í Kvíabekk þar sem boðið var upp á heimabakaðar kleinur og frostpinnar fyrir krakkana,“ segir Þorkell í samtali við Vikublaðið
Þið voruð búin að bíða eftir þessum framkvæmdum í áratugi, hefði ykkur nokkuð munað um að bíða í nokkur ár í viðbót? Spurði blaðamaður í kímni.
„Eins og kom fram í ræðu minni, þá hafði ég frétt að hinn metnaðarfulli ráðherra umhverfismála hafi verið að vinna að því að friða Reykjaheiðarveginn og ekki nóg með það heldur ætlaði hann að koma honum á heimsminjaskrá UNESCO,“ svaraði Þorkell og hefur eflaust brosað út í annað en samtalið átti sér stað í gegnum síma.
„Okkar undrun var mjög sterk þegar fréttist að það ætti eitthvað að fara gera við Reykjaheiðarveginn. Við gátum varla trúað þessu. Við vorum meira að segja búin að senda sveitarfélaginu bænarskjal en án árangurs,“ segir Þorkell ennfremur og bætir við að stemningin á opnunarhátíðinni hafi verið í hæstu hæðum.
Það er við hæfi að ljúka þessum greinarstúf á öðru broti úr erindi Torgara sem vísað er í hér að ofan:
„Hér hafa að sjálfsögðu engin stríðstól farið yfir. Einu tækin sem opinberir valdhafar hafa sent inn á þetta svæði eru veghefill þegar ástandinu svipar til þess sem sést á myndinni, og “pissubíllinn” á heitum sumardegi þegar þurrkar eru í hámarki og malarkennt leirlagið er farið að hreyfast óvenju mikið.
Þar með eru að fullu upptalin afskipti ríkjandi valdhafa á hverjum tíma að samfélagi okkar Torgara. Þannig hefur þetta líka verið svo lengi sem elstu íbúar Reykjaheiðarvegar muna, í rúma sex áratugi.“
Nú hafa Torgarar heldur betur tekið gleði sína með eina fallegustu götumynd Húsavíkur.