"Rétt skal vera rétt," segir Gunnar Gíslason um endurgreiðslu styrks

Gunnar Gíslason.
Gunnar Gíslason.

Gunnar Gíslason, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri sendi síðdegis frá sér tilkynningu, vegna styrks sem hann fékk í tengslum við námsleyfi  á árunum 2012 og 2013. Gunnar hefur sagt að hann láti senn af starfi fræðslustjóra Akureyrarbæjar.  Fordæmi eru fyrir því að þeir sem fengið hafa námsleyfi og hafa sjálfir ákveðið að hætta í starfi hjá bænum, hafa greitt til baka í námsleyfasjóð í samræmi við reglur þar um.

Bréf Gunnars Gíslasonar:

„Ég fékk námsleyfi sem fræðslustjóri Akureyrarbæjar í 9 mánuði frá hausti 2012 til vors 2013. Í því námsleyfi var ég að vinna að meistaraverkefni í stjórnun menntastofnana.  

Í „Samþykkt um styrki til námsleyfa embættismanna Akureyrarbæjar“,  segir  í 4. grein: „Við úthlutun styrkja skal við það miðað að starfsmaður geti fengið styrk til þriggja mánaða leyfis eftir þriggja ára starf sem embættismaður. Réttur til styrks eykst um ein mánaðarlaun fyrir hvert ár umfram 3 ár til 9 ára starfs­aldurs en hámarksstyrkur til eins árs leyfis fæst eftir 10 ár í starfi hjá bænum.“  Í 6. grein sömu samþykktar segir svo „Styrkur til námsleyfis umfram 3 mánuði er bundinn skilyrði um áframhaldandi starf hjá bænum eftir að leyfi lýkur sem nemur þreföldum leyfistímanum.“

Samkvæmt þessari samþykkt má ljóst vera að þar sem ég fékk fullt námsleyfi ber mér að vinna þrefaldan þann tíma sem ég fékk hjá Akureyrarbæ. Fram hefur komið að fordæmi eru fyrir því að þeir sem fengið hafa námsleyfi og hafa sjálfir ákveðið að hætta í starfi hjá bænum, hafa greitt til baka í námsleyfasjóð í samræmi við reglur þar um.

Ég stefni að því að vinna í stjórnunarstarfi hjá Akureyrarbæ sem bæjarfulltrúi ef ég næ kosningu sem slíkur, þiggja fyrir það laun sem dregin er af staðgreiðsla og önnur venjubundin gjöld launamanns og tel mig því ekki vera að hætta störfum hjá bænum. Ef það hins vegar kemur í ljós að ég verð talinn hafa hætt störfum hjá bænum við það að vera kosinn bæjarfulltrúi, þá ber mér augljóslega að greiða til baka þann hluta námsleyfisins sem ég er ekki búinn að vinna af mér. Það hefur reyndar komið fram einnig að ef ég fer í annað starf hjá bænum beri mér ekki að endurgreiða námsleyfið.

Þetta er sú staða sem ég stend frammi fyrir nú og það verður einfaldlega að koma í ljós hvernig með þetta mál verður farið.  Það er alveg ljóst af minni hálfu að rétt skal vera rétt og ég mun að sjálfsögðu fara eftir því í hvívetna.“

 

Gunnar Gíslason fræðslustjóri.

Nýjast