Reikna með svölum ágústmánuði

Ljósmynd/Bjór
Ljósmynd/Bjór

Hinn goðsagnakenndi Veðurklúbbur Dalbæjar á Dalvík hefur sent frá sér veðurspá fyrir ágústmánuð. Klúbburinn þykir óvenju hittinn á spám sínum í gegnum tíðina en það eru undantekningar á öllu enda reyndist júlíspá Dalbæinga heldur bjartsýnni en raunin varð.

„Eftir að við höfðum huggað hvort annað í svolitla stund vegna þess hve spá klúbbsins brást hraparlega fyrir júlí mánuð þá var það samþykkt að líklegasta ástæðan væri að fundurinn var haldinn viku fyrir venjulegan fastan fundartíma, sem er fyrst þriðjudag hvers mánaðar. Og það hafi því væntanlega sett skynjun allra rækileg úr skorðum, því aldrei þessu vant voru allir einmitt sammála um spá júlí fundarins. Ritari klúbbsins átti sök á því að fundurinn var haldin fyrr, eins og sumu öðru og lofaði að reyna allt sem hann gæti til að þetta kæmi ekki fyrir aftur,“ segir í fundargerð klúbbsins.

Meira af því sama

Í spá Dalbæinga fyrir ágúst er ekki gert ráð fyrir afgerandi hlýindum frekar en í júlí en ágætis veður engu að síður.

„Það er vonandi til góðs að núna voru félagar ekki alveg sammála um komandi tíð, en eins einkennilega og það hljómar og ég nefndi hérna að ofan þá virðist það ekki henta að allir séu sammála. En eftir samantekt úr draumum, rúnum, tunglkomum, Hundadaga tengingu og tilfinningum þá er niðurstaðan sú að ágúst verður að mestu svipaður og júlí hérna á stór Dalvíkursvæðinu. Nefnilega ágætis veður en áfram að mestu að norðan með engum afgerandi hlýindum,  skýjuðu að hluta en góðu skyni inn á milli.

En ég vil persónulega minna á það að veðrið er oft hreinlega eins og hugur manns…. bjart ef við tökum mest eftir því en dimmt ef hugurinn er mest stilltur þangað.

Munum því að njóta alls þess góða sem við mögulega getum og reynum svo bara að líta framhjá hinu ef hægt er,“ segir í fundargerðinni.

---

Sól er á hádegi í suðri

Sagt er að vonirnar fuðri

Lesa skal söguna sína

Síðan úr gullkornin tína.

Höf. Óþekktur.

---

Allir dagar eiga kvöld

Allar nætur daga

Þannig verða árin öld

Og öldin mannkynssaga.

 

Höfundur mögulega nefndur síðar.

 

 

 

Nýjast