Ráðhúsið á Akureyri - Ráðast þarf strax í endurbætur
„Við höfum ekki tekið af skarið um framtíð ráðhússins, það kemur enn til greina að gera umfangsmiklar endurbætur á húsinu svo sem þaki, gluggum, loftræsingu og byggja jafnframt við húsið til að rýma þá starfsemi Akureyrarbæjar sem nú er í Glerárgötu. Hinn möguleikinn er að byggja nýtt ráðhús frá grunni og selja núverandi ráðhús. Í millitíðinni þurfum við að bregðast við brýnustu viðhaldsþörf,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrar.
Lagt var fram minnisblað vegna viðhaldsáætlunar ráðhússins á Akureyri fyrir árin 2023 til 2026 á fundi ráðsins. Fram kemur í bókun þess að einboðið sé að ráðast strax í brýnustu endurbætur á ráðhúsin vegna flóttaleiða og rakavandamála og er vísað í skýrslu frá Mannviti þar um.
„Frekari endurbætur á ráðhúsi þurfa að skoðast í samhengi við viðhaldsþörf á skrifstofum bæjarins í Glerárgötu og þá meginhugmynd að byggja við ráðhús og sameina skrifstofur Akureyrarbæjar á einum stað.“
Andri segir að ráðhúsið eins og það sé nú uppfylli ekki kröfur um flóttaleiðir og því hafi verið til skoðunar hvort setja ætti upp járnstiga sviðaðan og er t.d. við Rosenborg, eða þá öflugra mannvirki sem væri steinsteypt stigahús en samt opið og óupphitað. „Einnig höfum við verið að vinna að ýmsum endurbótum á ráðhúsinu á undanförnum árum, tókum til dæmis jarðhæðina í gegn fyrir 2 árum,“ segi hann.
Óheppilegt að fallið var frá framkvæmdaáætlun um endurbætur
„Sú ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar sl. haust að fella út af framkvæmdaáætlun endurbætur og viðbyggingu við ráðhúsið er nú fallin um sjálfa sig á innan við hálfu ári miðað við þá mynd sem dregin er upp í þessu máli,“ segir í bókun sem bæjarfulltrúarnir Gunnar Már Gunnarsson B-lista, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista og Sindri Kristjánsson S-lista bókuðu á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs.
„Sú framkvæmd hefði haft í för með sér hagræðingu og sparnað til lengri tíma og ákjósanlegur kostur í núverandi efnahagsástandi og afar óheppilegt að fallið hafi verið frá henni,“ segir ennfremur.